Fréttabréf – apríl

Kæru vinir.

Ég vil byrja á að þakka fyrir þátttökuna í afmælisviku Lindarinnar í síðasta mánuði.   Um 5,1 mkr söfnuðust, bæði í formi stakra gjafa og sem aukinn mánaðarlegur stuðningur. Þessi fjárhæð hjálpar okkur að tryggja reksturinn út árið, þótt betur megi ef duga skal.

Í tengslum við afmælisvikuna vorum við með nokkra viðburði sem komu vel út ….

Á sprengidag héldum við styrktarkvöldverðinn Saltkjöt & baunir. Þangað mættu um 70 manns. Við héldum Opið hús fyrir börn á miðvikudeginum í afmælisvikunni sem var nýmæli og mæltist vel fyrir. Sálmakvöld í beinni var á sínum stað og svo fengum við markþjálfa til að fjalla um efnið Sigraðu sjálfan þig í fræðslusal Lindarinnar.

Um 60 einstaklingar og fyrirtæki veittu okkur stuðning í formi vara og þjónustu. Svo hafa nokkur hundruð manns greitt valkröfu í heimabankanum upp á 5.000 kr. en hún er á eindaga 15. apríl, þannig að það er enn tækifæri að senda inn stuðning.

Þema afmælismánaðarins er „Að vera lærisveinn Jesú“. Það er mikilvægt fyrir okkur sem kristna einstaklinga að halda boðorð Guðs og hafa sannleikann í hjarta okkar og huga.  Í fyrsta Jóhannesarbréfi, 2. kafla, versum 4 og 5, segir:

„Sá sem segir: „Ég þekki hann,“ og heldur ekki boðorð hans er lygari og sannleikurinn er ekki í honum. En hver sem varðveitir orð Guðs, hann elskar sannarlega Guð á fullkominn hátt. Þannig þekkjum við að við erum í honum.“

Til að við getum skoðað okkur í þessu ljósi þá settum við einfalt sjálfspróf á vefsíðu Lindarinnar. Það fylgir líka útprentað með þessu fréttabréfi. Prófið samanstendur af nokkrum spurningum en með því að svara þeim samviskusamlega, getur þú séð hvar þú stendur þig vel og hvar þú getur bætt þig á göngunni með Jesú.

Kærleikskveðja,

Hafsteinn Gautur Einarsson, útvarpsstjóri

Lindin, kristið útvarp │ Krókhálsi 4 │ 110 Reykjavík │ kt. 691194-2729 │ S: 567-1818 │ lindin@lindin.is