Fréttabréf – maí

Kæru vinir.
Nú þegar sumarið er nýhafið og hin árlega bænaganga fór fram á fyrsta degi sumars, er vert að minna á mikilvægi þess að biðja reglulega fyrir landi og þjóð.

Okkur er gert að vera stöðug í bæninni: „Biðjið án afláts. Þakkið alla hluti því að það er vilji Guðs með ykkur í Kristi Jesú,“ segir í 1. Þess. 5:17-18. Og þar sem við göngum daglega styttri og lengri vegalengdir, þá hlýtur að henda okkur stundum að biðja gangandi og er það vel.

Að ganga og biðja getur fært okkur nær því sem við biðjum fyrir. Hver kannast ekki við þörfina fyrir að leggja hendur yfir þann sem beðið er fyrir? Eða að keyra að ákveðnum stað sem tengist bænarefninu á einhvern hátt? Við getum líka notað skilningarvitin, þ.e. sjón, heyrn, lykt, bragð og snertiskyn, til að lyfta upp litadýrð bænalífsins. Hér má gefa hugmyndafluginu lausan tauminn með nánari útfærslur.

Á þeim tíma er bækur Biblíunnar voru ritaðar, voru gönguferðir helsta samgöngutækið. Ekki þarf því að undra að fólk hafi gengið og beðið samtímis. Mikið frelsi er í raun tengt bæninni. Við getum dvalið í bæn þar sem við keyrum í bílnum okkar, eða þar sem við matreiðum kvöldverðinn. Við getum brugðið okkur í bæn í svefnrofunum á morgnana, með stírurnar í augunum eða uppgefin og þreytt þar sem við leggjumst á koddann. Guð hefur gert bænalífið eins aðgengilegt og þægilegt fyrir okkur eins og sjálfan andardráttinn.

Guð heyrir allar bænir: „Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið og yður mun veitast það,“ segir í Jóh. 15:7. Þessi fyrirheit eru óháð stað og stund.

Ég hvet þig, hlustandi góður, til að efla bænalífið og gera það enn fjölbreyttara.

Gleðilegt sumar!
Hafsteinn Gautur Einarsson,
útvarpsstjóri

Lindin, kristið útvarp │ Krókhálsi 4 │ 110 Reykjavík │ kt. 691194-2729 │ S: 567-1818 │ lindin@lindin.is