Af geitum og köttum

Jólageitin er komin á sinn stað á bílastæðinu fyrir framan IKEA, jólakötturinn á Lækjartorg og jólagjafaauglýsingar orðnar fyrirferðamiklar á síðum dagblaðanna. Sem sagt, allt eins og það á að vera. Eða hvað?

Á meðan aðventan er ánægjulegur tími fyrir flesta, þá er ljóst að það sem landsmenn gleðjast yfir á jólum er í hugum margra, ótengt þeirri staðreynd að Guð kom í heiminn sem barn í þeim tilgangi að bjarga okkur.

Könnun sem gerð var í Bandaríkjunum sýnir að 78% fólks telur að það að halda upp á fæðingarhátíð frelsarans sé ekki mikilvægur hluti jólahaldsins. Enn hryggilegra er, að í þessari sömu könnun, var Jesús Kristur neðarlega á listanum yfir mikilvæga hluti á jólum. 63% svarenda sögðu til dæmis að sjónvarpsáhorf væri mikilvægara en boðskapur jólanna.

Við skulum því vera duglega að minna fólk í kringum okkur á boðskap jólanna; þann gleðilega boðskap að bjargvættur fæddist meðal okkar á sínum tíma með skýran tilgang.

Orðið aðventa er komið úr latínu (ad og venire) og þýðir að koma. Aðventan byrjar fjórum sunnudögum fyrir jól og endar á aðfangadagskvöldi og er tími sem kristnir menn eiga að nota til þess að undirbúa líf sitt og heimili fyrir komu frelsarans.

Í fyrsta kafla Jakobsbréfsins er talað um góðar gjafir að ofan:

„Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að, frá föður ljósanna.
Hjá honum er engin umbreyting né flöktandi skuggar. Hann er ávallt
hinn sami. Hann ákvað að láta orð sannleikans vekja okkur til lífs
til þess að við skyldum vera frumgróði sköpunar hans.“

Lindin er til staðar fyrir landsmenn allan ársins hring og færir þjóðinni boðskap friðar og kærleika, sem birtist í Kristi Jesú. Í hverri viku heyrum við vitnisburði fólks sem Jesús hefur snert og umbylt til hins betra. Lindin færir þér fagnaðarboðskapinn.

Lindin óskar þér, hlustandi góður, ánægjulegrar aðventu. Megi þessi tími minna þig á boðskap jólanna og færa þér gleði inn að hjartarótum.

.

Aðventukveðjur,
Hafsteinn Gautur Einarsson, útvarpsstjóri

.

Lindin, kristið útvarp │ Krókhálsi 4 │ 110 Reykjavík │ kt. 691194-2729 │ S: 567-1818 │ lindin@lindin.is