Gleðilegt ár!

Algengt er að heyra fólk kveðja með því að segja „Vertu í bandi“. Hér kemur fram ósk um að viðkomandi verði í sambandi fljótlega aftur. Lýsir hlýju og áhuga.

Án efa er sama ósk í huga Drottins þegar við endum bæn okkar og samtal við hann. Hann óskar þess að við höfum samband við hann fljótlega aftur.   Þegar við biðjum í trú og samkvæmt Guðs Orði, þá leysist út kraftur sem kemur góðum hlutum til leiðar.

Í Jakobsbréfinu segir að kröftug bæn réttláts manns megni mikið (Jk. 5.16). Seint verður ítrekað nógsamlega hve mikilvæg bænin er sem grundvöllur lífs okkar og samfélags við Drottin.   Ég hvet hlustendur Lindarinnar að sýna samstöðu í bæn fyrir íslensku þjóðinni og hennar málum við upphaf nýs árs. Biðjum þess að vilji Guðs leiði allar ákvarðanir sem teknar eru. Tvennt er framundan í janúarmánuði sem tengist bæninni:

  • Hin árlega bænavika Lindarinnar verður dagana 6.-12. janúar. Dagskrárefni í útsendingu verður þá meira stillt inn á bænina og hvetjum við hlustendur til að taka virkan þátt.
  • Alþjóðleg samkirkjuleg bænavika fyrir einingu kristninnar verður haldin daganqa 18.-25. janúar. Nánari upplýsingar um viðburði vikunnar má finna á Fésbókinni undir nafninu “Bænavikan 18-25 janúar”.

Árið 2020 er stórt ár í sögu Lindarinnar því útvarpsstöðin okkar er orðin 25 ára. Það var árið 1995 sem hjónin Mike og Sheila Fitzgerald, stigu fram í trú og þjónustu og hófu útvarpsrekstur á FM 102,9 og síðan á fleiri tíðnum. Gegnum útvarp hefur Lindin verið „í bandi við hlustendur“ allar götur síðan, með kærleiksboðskap úr Orði Guðs, í tali og tónum.  

Það er mér einstök ánægja að tilkynna að stefnt er að veglegum afmælis- tónleikum Lindarinnar laugardaginn 7. mars nk. Þar mun okkar besta tónlistarfólk bjóða gestum upp á tónlistarveislu sem gerir skil þeim 25 árum sem Lindin hefur starfað.

Svo óska ég þér, kæri hlustandi, gleðilegs nýs árs. Megi Guð gera nýja og spennandi hluti í þínu lífi á nýja árinu og veita þér nýjan kraft á öllum sviðum.

Nýárskveðjur,

Hafsteinn Gautur Einarsson, útvarpsstjóri

.

Lindin, kristið útvarp │ Krókhálsi 4 │ 110 Reykjavík │ kt. 691194-2729 │ S: 567-1818 │ lindin@lindin.is