Ekki af þessum heimi

Þegar daglegt líf fer úr skorðum þá breytist margt. Á undanförnum vikum hafa margir misst vinnuna og enn fleiri farið í hlutastarf. Og óvissan um framtíðina hefur fengið marga til að draga saman seglin hvað snertir dagleg útgjöld.

Við heyrum í fréttum að heimilisofbeldi færist í aukana samhliða meiri tíma fólks inni á heimilum. En það eru líka jákvæðir punktar í þessu breytta lífsmynstri, sem minna er talað um. Skv. breskri rannsókn sem nýlega var framkvæmd segja 4 af 5 hjónum að fjölskylduböndin hafi styrkst síðan samkomubannið var sett á þar í landi. Einnig segjast 60% hjóna og sambúðarfólks vera ánægðari með maka sinn nú en áður. Skyldi tölfræðin vera svipuð hér á landi?

Auglýsingatekjur útvarpsstöðva hafa dregist saman, enda eru fyrirtæki almennt minna að auglýsa en áður. Þetta mun setja mark sitt á rekstur þessara miðla á næstu mánuðum. Lindin er hins vegar í ákveðnum sérflokki. Hún hefur engar auglýsinga-tekjur, enda býður hún kirkjum og kristnum félögum að auglýsa hjá sér frítt.

Að baki Lindinni standa hundruð einstaklinga, fyrirtækja og kirkna sem styðja hana með mánaðarlegu framlagi. Þannig sker rekstur hennar sig frá öðrum útvarpsstöðvum og er það vel. Við viljum vera öðruvísi og ekki háð duttlungum markaðarins. Við sjáum líka að mánaðarlegur stuðningur frá hlustendum hefur ekki dregist saman á síðustu vikum.

Kærar þakkir fyrir það!

Það má því segja að Lindin sé nánast ónæm fyrir sveiflum efnahagslífsins. Hún er í heiminum en ekki af heiminum (Jóh. 17:16). En mikilvægt er engu að síður að minna hlustendur á mánaðarlega stuðninginn, sem er undirstaðan að áframhaldandi rekstri stöðvarinnar. Margt smátt gerir eitt stórt.

 

Gleðilegt sumar!

Hafsteinn Gautur Einarsson, útvarpsstjóri

 

Lindin, kristið útvarp │ Krókhálsi 4 │ 110 Reykjavík │ kt. 691194-2729 │ S: 567-1818 │ lindin@lindin.is