Ábyrg ráðsmennska

Ársreikningur Lindarinnar fyrir árið 2019 er kominn í hús og má segja að reksturinn hafi gengið vel. Við njótum þess að búa við stöðuga afkomu ár eftir ár. Veltan var 37,6 mkr á liðnu ári, sem er nánast sama upphæð og árið á undan.

Útsendingarkostnaður var 13,2 mkr, launakostnaður 16,4 mkr, húsnæðiskostnaður 3,8 mkr, annar rekstrarkostnaður 3,7 mkr og afskriftir 900 þkr. Þannig voru rekstrargjöldin samtals 38 mkr, sem þýðir lítils háttar tap upp á 453 þkr.

Rétt undir núllinu en betra hefði samt verið að enda í plús. Tapið er þó aðeins 1,2% af veltu, sem telst ekki mikið.

Eignir Lindarinnar um síðustu áramót voru 7,6 mkr, sem aðallega eru útvarpssendar og búnaður. Ógreiddar skuldir voru 5,6 mkr, sem mér og stjórnarmönnum þykir brýnt að greiða upp sem fyrst.

Það er mér mikið kappsmál að vel sé haldið utan um rekstur Lindarinnar og að ábyrg ráðsmennska sé í allri fjármálastjórn. Ég hef góðan hóp sex einstaklinga sem sitja í stjórn Lindarinnar og rýna með mér í rekstur Lindarinnar frá mánuði til mánaðar.

En hvað felst í ábyrgri ráðsmennsku samkvæmt Orði Guðs? Ég tel það vera að „ráðstafa þeim auðlindum sem Guð gefur okkur afnot af honum til dýrðar og hans sköpun til framdráttar“. Kjarninn í þessu fyrir hinn trúaða er að stjórna öllu því sem Guð setur inn í líf hans, á þann hátt að það heiðri Guð.

Í Biblíunni eru 2.350 vers sem fjalla um peninga og eignir. 15% af því sem Jesús talaði um tengist peningum. Ástæða þess að faðir okkar fjallar svona mikið um þessi atriði er sú að hann elskar okkur og vill að við meðhöndlum fjármuni á skynsamlegan hátt. Sumum finnst þetta óþægilegt umræðuefni, en fyrst hann taldi það mikilvægt, þá ættum við að gera það líka.

Með vinsemd og virðingu,

Hafsteinn Gautur Einarsson, útvarpsstjóri

Lindin, kristið útvarp │ Krókhálsi 4 │ 110 Reykjavík │ kt. 691194-2729 │ S: 567-1818 │ lindin@lindin.is