Máttarverk

Þegar Guð starfar þá eiga kraftaverk sér stað. Í raun er ekki hægt að tala um „lítil“ kraftaverk, því í eðli sínu eru þau alltaf stór. Þau eru „fyrir utan kassann“, utan við ramma vísindanna, sem ávallt heimta að allt sé útskýrt með veraldlegum hætti.

 

Þegar við vitnum fyrir fólki þá erum við að leyfa Guði að nota okkur til að færa út tjaldhælana á ríki hans. Það er hins vegar Heilagur andi sem vinnur verkið og sannfærir um synd, réttlæti og dóm, eins og haft er eftir Jesú í Jóhannesarguðspjalli 16:8:

„Þegar hann kemur mun hann sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur.“

Guð elskar að kalla okkur til samstarfs og hann eflir okkur og styrkir við að ná til fólks með fagnaðarerindið. Stundum eru einföld orð okkar nóg. Að sýna fólki kærleika, gefa því tíma og hlusta, getur opnað dyr að hjarta þeirra. Að gefa því Orð Guðs, jafnvel bara eitt vers, getur gert kraftaverk. Síðan tekur Heilagur andi við.

Samtökin Máttarverk eru íslensk þverkirkjuleg samtök sem hafa að markmiði að koma Orði Guðs til þjóðarinnar. Nýlega gáfu þau út bækling sem heitir Guðs ríki er í nánd. og hefur honum nú þegar verið dreift í nokkur hundruð póstkassa í Reykjavík. Sett hefur verið upp vefsíða www.mattarverk.is sem fylgir bæklingnum eftir og svarar spurningum fólks. Þar er fólk leitt áfram fyrstu skrefin á trúargöngunni.
Á vefsíðunni eru .pdf útgáfur af fleiri bæklingum sem hægt er að prenta út og afhenda. Þú getur haft samband gegnum vefsíðuna og fengið send eintök til að dreifa.
Og eitt í viðbót. Maímánuður er trúboðsmánuður. Ég vil því skora á þig að
 • taka fyrir 5 einstaklinga í bæn og biðja fyrir þeim til frelsis.
 • biðja Heilagan anda um að leiða þig að fólki sem þú getur vitnað fyrir.
 • setja þér markmið um að vitna fyrir einum einstaklingi laugardaginn 28. maí, sem er alþjóðlegi trúboðsdagurinn. Þannig ertu virkur þátttakandi með milljónum kristinna um heim allan sem fara út á göturnar og vitna um Jesú.
Í Matteusi 28:19 segir: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum“

Megi Guð gefa þér anda máttar og kærleiks og stillingar,

Hafsteinn Gautur Einarsson, útvarpsstjóri.


  Lindin mín

  App Lindarinnar hefur fengið frábærar viðtökur. Það er notað 1.100 sinnum að meðaltali í hverjum mánuði. Svo hlusta margir á dagskrá Lindarinnar í beinni í gegnum appið.

  Smelltu á myndina að ofan til að eignast þína eigin Lind.

  Gjafalistinn

  Afmælisvika Lindarinnar var haldin með pompi og pragt dagana 28.febrúar til 5. mars. Listinn með þeim gjöfum sem hlustendur hafa fært Lindinni er aðgengilegur hér og bendum við á að enn er fullt af athyglisverðum vörum og þjónustu á listanum sem hægt er að næla sér í.

   

  Lindin, kristið útvarp │ Krókhálsi 4 │ 110 Reykjavík │ kt. 691194-2729 │ S: 567-1818 │ lindin@lindin.is