Haustfjáröflun

Ég vil byrja á að þakka fyrir góða þátttöku í haustfjáröflun Lindarinnar. Henni er nú formlega lokið og söfnuðust 2,1 milljón króna.

Einn einstaklingur gaf 50 þkr, annar 76 þkr, fjórir gáfu 100 þkr hver, einn gaf 300 þkr og hæsta upphæðin var 500 þkr. frá einum gjafmildum hlustanda.

 

Nokkrir nýir komu inn í mánaðarlegan stuðning auk þess sem aðrir hækkuðu sinn stuðning. Margt smátt og stórt, gerir eitt ennþá stærra og fyrir það erum við óendanlega þakklát. Við segjum því takk og aftur takk!

Lindin er í leiguhúsnæði í Krókhálsi 4 og þessa dagana er leigusalinn að endurnýja húsnæðið sem hluta af nýjum leigusamningi. Verið er að mála alla skrifstofuna, setja nýtt gólfefni og innrétta nýtt hljóðver. Það verður allt annar og betri bragur á húsnæðinu þegar framkvæmdum er lokið.

Uundirritaður er að fara á Lausanne ráðstefnuna í Búdapest, dagana 2-5. nóvember. Fyrir þau ykkar sem ekki þekkja Lausanne hreyfinguna þá hófst hún árið 1974 í Lausanne í Sviss, á stórri alþjóðaráðstefnu evangelískra manna en þar var Lausanne-sáttmálinn undirritaður. Þetta var undir forystu bandaríska prédikarans Billy Graham en enski guðfræðingurinn og presturinn John Stott hafði forystu um gerð sáttmálans. Hann er notaður sem eins konar trúarjátning á meðal margra evangelískra kirkjudeilda og er sáttmálinn grundvallarplagg að starfi Lindarinnar. Sáttmálinn, í þýðingu Kjartans Jónssonar, er aðgengilegur hér á vefsíðu Lindarinnar.

Ráðstefnan sem ég er að fara á í Búdapest í Ungverjalandi, setur fókusinn á Evrópu og hefur að markmiðið að finna leiðir til að efla kristniboð í okkar heimsálfu. Þarna verða fulltrúar frá öllum löndum Evrópu og verður það einstaklega spennandi og skemmtilegt að sjá og heyra hvað kristið fólk, sem hefur hjarta fyrir útbreiðslu fagnaðarerindisins, er að gera í öðrum löndum.

Ég bið þér Guðs blessunar, kæri hlustandi, í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.

Kærleikskveðja,

Hafsteinn Gautur Einarsson,

Útvarpsstjóri

 

 


    Lindin mín

    App Lindarinnar hefur fengið frábærar viðtökur. Það er notað 1.100 sinnum að meðaltali í hverjum mánuði. Svo hlusta margir á dagskrá Lindarinnar í beinni í gegnum appið.

    Smelltu á myndina að ofan til að eignast þína eigin Lind.

    Lindin, kristið útvarp │ Krókhálsi 4 │ 110 Reykjavík │ kt. 691194-2729 │ S: 567-1818 │ lindin@lindin.is