
Boðskapur dagsins │18. febrúar 2025│Aðalsteinn Már Þorsteinsson
Eftirsókn eftir þekkingu og kapphlaup um skilning
Þörfin fyrir það að skilja er óneitanlega órjúfanlegur hluti af okkar mannlega eðli. Ein leið til þess er m.a. sú að skilgreina eða flokka niður, ramma inn eða bera saman. Þannig reynum við að ná utan um eitthvað, skilja það, með því að fanga það og pakka inn. Vandinn liggur svo oft í því að það er hreinlega ekki alltaf svo gott að átta sig á því hvort eða hvenær við eða aðrir hafa öðlast fullan skilning á einhverju. Það getur líka hent hvern sem er að lifa í blekkingu og hafa misskilið allt saman – en telja þann skilning réttan.
Seint verður misskilningur talinn góður en alla jafna teljum við það til bóta að skilja hlutina. Svo höfum við líka þessa sterku þörf, sem veldur því líka að þegar við mætum einhverju nýju eða óvæntu, búum við gjarnan til okkar eigin skilning á því, byggðan á fyrri reynslu og ályktunarhæfni okkar. Við drögum ályktanir og því miður ekki allt svo sjaldan rangar, sérstaklega á sviðum eða í aðstæðum þar sem skilningur okkar er takmarkaður eða einsleitur. Hluti þess hvata sem við finnum til þess að leitast við að skilja meira og betur er því í raun nokkurs konar sjálfsbjargarviðleitni okkar í þá átt að draga úr líkum á því að við lendum í aðstæðum þar sem okkur verður það á að hrapa að ályktunum.
Allir vilja líta vel út, við þykjumst vera með allt á hreinu, því það þykir sjaldnast svalt að láta sjást hjá sér skort á skilningi. Kapp margra eftir því að skilja því sem næst alla hluti, eða að hafa allavega á því skoðun er því nokkuð oft býsna mikið. En öllu kappi skal fylgja nokkur forsjá. Prédikarinn kemst nefnilega að þeirri niðurstöðu í fyrsta kafla, sautjánda versi að það að leggja allan hug á að þekkja speki sé líkt og svo margt annað eingöngu hégómi og eftirsókn eftir vindi. Vert er og að hafa líka í huga að Adam og Eva sóttust í að eta af skilningstréinu og því er enn svo farið með margan manninn í dag að hann lofsyngur og leggur allt traust sitt á eigin gáfur og hyggjuvit. Þar skal þá þekking og hæfni hins „upplýsta hugsandi manns“ þurrka þörfina fyrir Guð af borðinu.
Svo hraplega getur manninum skjátlast er hann reynir að draga eigin ályktanir um leyndardóma lífsins út frá sinni eigin hugsun einni saman án aðkomu Guðs. Páll gengur jafnvel svo langt í upphafi fyrra bréfs síns til Korintumanna að fullyrða að mennirnir geti ekki þekkt Guð með sinni speki, fagnaðarerindið um réttlætisverk Krists á krossinum hljómi sem heimska í augum manna á sama tíma og það veiti þeim kraft sem trúa. Páll álítur að heimsins hyggindi og speki líti heimskulega út í augum Guðs enda leiði hún til glötunar á sama tíma og sá boðskapur, að Kristur dó á krossi til að frelsa alla menn, sem heimurinn afneitar sem heimskulegum, leiðir þá sem trúa til frelsis.
Biblían er skýr. Spekin er Guðs. Í upphafi Síraksbókar getum við m.a. lesið efirfarandi þar sem spekin er vegsömuð: Öll speki er frá Drottni, hjá honum er hún að eilífu. Hver fær talið sandkorn á sjávarströnd, dropa regns eða daga eilífðarinnar? Hver fær kannað hæð himins, víðáttu jarðar, undirdjúpin eða spekina? Fyrri öllu var spekin sköpuð, frá eilífð voru skilningur og hyggindi. Orð Guðs í upphæðum er lind spekinnar, eilíf boð hans vegir hennar. Hverjum opinberaðist upphaf spekinnar? Hver komst yfir hulin rök hennar? Hverjum opinberaðist þekking á spekinni og hver hlaut skilning á allri reynslu hennar? Drottinn einn er spakur, ógurlegur mjög, situr í hásæti sínu. Hann er sá sem spekina skóp, leit á hana og virti vel og veitti henni yfir öll sín verk. Allt sem lifir fékk hlutdeild í þeirri gjöf hans, hann veitir þeim sem elska hann ríkulega af henni. Að óttast Drottinn er heiður og vegsemd, gleði og fagnaðarsveigur. Að óttast Drottin fyllir hjartað fögnuði, veitir ánægju, gleði og langlífi. Sá sem óttast Drottin mun hljóta sælan endi, njóta blessunar á banadægri. Upphaf spekinnar er að óttast Drottin. Hún er ásköpuð hinum trúföstu þegar í móðurlífi. (Síraksbók 1.1-14) Það á svo sem ekki að koma okkur á óvart að við í raun þiggjum skilning okkar að gjöf frá Guði, allt þiggjum við jú úr hendi hans. En það að leita Drottins og óttast hann er í raun vegurinn í átt að aukinni speki og betri skilningi.
Sá sem eltist við gáfuna eina í sókn eftir því að verða sjálfur meiri og fremri fetar hins vegar braut sem enginn trygging er fyrir að leiði hann á áfangastað. Eftirsókn eftir speki í eigin þágu getur því miður nefnilega og hefur of oft leitt í villu og hroka. Þó segir spekin sjálf, þar sem hún tekur sér orð í munn í Orðskviðunum að sá sem finni sig finni lífið og hljóti blessun af Drottni (8.35). Gott er engu síður að hafa í huga að Jeremía spámaður minnir á í 9.23-24: að þekking sem slík sé ekkert til þess að stæra sig af en það að þekkja Guð sé það. „Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni … Hver sá er vill hrósa sér, hrósi sér að því, að hann sé hygginn og þekki mig, segir Drottinn.“ Það er og ærin ástæða til þess að hrósa sér af því að þekkja Guð. Jóhannes segir í 17. kafla guðspjallsins síns, 3. versi: að það sé hið eilífa líf að þekkja Guð, hinn eina sanna, og þann sem Guð sendi, Jesú Krist.
Í Jesú Kristi eru nefnilega allir fjársjóðir spekinnar og allir fjársjóðir þekkingarinnar fólgnir eins og segir í upphafi Kólossubréfsins og því mikilsvert að gjörþekkja, fá fulla innsýn inn í leyndardóm Guðs, Jesú Krist. Það er sá skilningur, sú speki, sem mestu er um vert að sækjast eftir í lífinu, hann breytir öllu fyrir líf okkar, bæði hér og nú og um ókomna framtíð. Það er og niðurstaða Jobs, í hans ævaforna riti sem enn er talið á meðal mestu snilldarverka heimsbókmenntanna, að leiðin til þess að takast á við vandamál þjáningarinnar og raunir þessa heims felist í samfélaginu við Guð og þekkingunni á honum. „Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefur auga mitt litið þig!“ er haft eftir Job í 42.5.
Við mannfólkið erum forvitin að eðlisfari. Leit mannsins að auknum skilningu á eðli allra hluta í náttúrunni hefur vissulega í heildina fært okkur þægilegra líf á sama tíma og hún hefur ýtt okkur fram á hengibrúnina. Aldrei hefur mannskepnan staðið jafn nærri því að tortíma sjálfri sér nú þegar henni stafar eiginlega ekki lengur ógn að neinu öðru en sínum eigin möguleikum, afleiðingum eigin lifnaðarhátta og fyrri gjörða. Aukin þekking mannsins hefur fært honum fleiri möguleika en ekki leitt til aukins kærleika og líkt og kærleiksóðurinn minnir okkur á þá er maðurinn ekkert án kærleikans, jafnvel þó svo að hann viti alla leyndardóma og hafi alla þekkingu.
Hinn upplýsti nútímamaður sem allt þykist vita er kannski ekki svo ólíkur faríseanum í dæmisögunni um mennina tvo sem fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. (Lúkas 18.9-14) Hinn upplýsti nútímamaður treystir því að hann sjálfur sé með allt á hreinu, skilji og viti allt best en fyrirlítur aðra. Þung er sú byrði sem við höfum lagt okkur á herðar. Við þurfum að þykjast skilja allt, vita allt, vera með allt á hreinu. Við þurfum að vera upplýst og hafa skoðanir á öllu. Sífellt fleiri bugast og líða undan oki samtímans, hraðanum og upplýsinga offlæðinu. Bara ef fleiri vissu að betra er að halda sig í hópi smælingjanna en telja sig eða leitast við að vera meðal spekinga og hyggindamanna. Jesús segir: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matteus 11.28-30) Látum af að þykjast vita allt eins og allir hinir en verum duglegri að láta heyrast að við vitum bara það eitt sem öllu máli skiptir, sama hver spurningin er: Jesús er svarið.
Kæru hlustendur Lindarinnar. Í því ljósi kveð ég í dag með bænarorðum tollheimtumannsins í dæmisögunni úr Lúkas 18. er stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins heldur barði sér á brjóst og sagði: „Guð, vertu mér syndugum líknsamur!“ Amen.
Aðalsteinn Már Þorsteinsson
Lífsmótun, Hjalla, 641 Húsavík