Lindin leggur áherslu á vandaða og fjölbreytta dagskrá. Við þjónum hlustendum með fræðandi kristilegu efni sem nærir og eflir á göngunni með Guði. Til þess að þetta sé mögulegt byggjum við starfið á dagskrárgerðarfólki og öðrum sjálfboðaliðum sem gefa af tíma sínum og hæfileikum.

Við leitum að fleiri sjálfboðaliðum til starfa.  Að neðan eru nokkur að þeim verkefnum sem við þurfum aðstoð með;

Símavarsla. Daglega hringja hlustendur í Lindina með bænarefni. Okkur vantar aðila í símaþjónustu einn morgun í viku, frá kl. 9 til 11 til að taka niður bænarefni fyrir bænastundina sem er á hverjum virkum morgni kl. 10:30.  (2 klst. á viku)

Erlendar fréttir. Gaman væri að setja í loftið vikulegan fréttapistil, 4-8 mín að lengd, með athyglisverðum erlendum fréttum sem tengjast kristinni trú.  Aðila vantar til að velja, þýða og útbúa slíkt fréttaefni.  (5 klst á viku)

Þrif. Okkur vantar fúsar hendur til að sinna þrifum á skrifstofu Lindarinnar.  (3 klst. á mánuði)

Klippivinna. Aðstoðar er þörf við að klippa upptökur og þætti. Ef þú ert tölvuglögg(ur) og þolinmóð(ur), þá getum við kennt þér á klippiforritið.

Þáttagerð. Ávallt er þörf fyrir gott dagskrárgerðarfólk sem hefur ástríðu fyrir því að Orð Guðs heyrist í samfélaginu, talar skýrt og temur sér vandað íslenskt mál.  (4 klst. á viku)

Heimasíðan, Facebook og Instagram. Við þurfum aðstoð við að setja efni á samfélagsmiðla. Þessir miðlar bjóða upp á gríðarlega möguleika til að ná til fólks með Guðs Orð.  Ertu ungur/ung og hefur ástríðu fyrir því að koma uppbyggjandi boðskap á framfæri til fólks?  Þá er samstarf við Lindina kannski eitthvað fyrir þig  (getur verið allt frá 2 til 10 klst. á viku).

Ert þú með hugmynd?  Lumar þú á verkefni sem Guð er að banka í þig með að framkvæma? Ef svo er þá erum við til í að heyra frá þér.

Ef þú hefur tök á að taka eitthvert ofangreindra verkefna að þér þá getur þú fyllt út formið hér á vefsíðunni. Þú slærð inn lykilorðið “Lindin123” og þá kemstu inn í formið.  Þú getur líka hringt og spjallað við okkur í síma 567-1818. Við höfum ekki tök á að greiða laun fyrir þessi störf, en ef þú hefur hjarta fyrir því að þjóna til samfélagsins gegnum rekstur Lindarinnar, þá hefðum við gaman af að heyra frá þér.

Að þjóna á Lindinni er að þjóna í ríki Guðs. Öll höfum við náðargáfu, hvert og eitt. Við eigum að nota þær Guði til dýrðar, eins og fram kemur í fyrra Pétursbréfi 4.10-11:

 „Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónar sýni að Guð gefi máttinn til þess. Verði svo Guð vegsamaður í öllum hlutum fyrir Jesú Krist …“

Kærleikskveðja,

Hafsteinn Gautur Einarsson, útvarpsstjóri

 


    Lindin mín

    App Lindarinnar hefur fengið frábærar viðtökur. Það er notað 1.100 sinnum að meðaltali í hverjum mánuði. Svo hlusta margir á dagskrá Lindarinnar í beinni í gegnum appið.

    Smelltu á myndina að ofan til að eignast þína eigin Lind.

    Lindin, kristið útvarp │ Krókhálsi 4 │ 110 Reykjavík │ kt. 691194-2729 │ S: 567-1818 │ lindin@lindin.is