Fjölbreytt starfsemi Lindarinnar

Útvarpsstöðin Lindin hóf útsendingar í Reykjavík í mars 1995. Upphaflega var aðeins um einn útvarpssendi að ræða en með árunum hefur útvarpssendum Lindarinnar fjölgað jafnt og þétt enda var markmið stofnendanna allt frá upphafi að ná til allrar þjóðarinnar. Stofnendur Lindarinnar eru hjónin Mike og Sheila Fitzgerald sem á 10. áratug síðustu aldar fengu þá sýn að stofna kristilegt fjölmiðlatrúboð á Íslandi. Sjálf þekktu þau ekkert til útvarpsreksturs en fóru engu að síður af stað af mikilli trúarvissu og sannfæringu.  Árið 2010 voru útvarpssendar Lindarinnar orðnir 15 talsins, hringinn í kringum landið. Í dag sendir Lindin út sína dagskrá allan sólarhringinn, alla daga ársins, í gegnum FM-senda, netið og appið “Lindin mín”.

Lindin er rekin sem hugsjónastarf og nýtur þess að hafa marga trúfasta starfsmenn sem flestir eru sjálfboðaliðar og gefa af tíma sínum og hæfileikum. Fjárhagslega er starfið borið uppi af einstaklingum, kirkjum og fyrirtækjum sem trúa á mikilvægi þess að gefa þjóðinni jákvæðan kristilegan boðskap í tali og tónum.

Tónlistarstefna
Lindin helgar sig kristilegri tónlist og Orði Guðs. Kristileg tónlist er fjölbreytt, allt frá hefðbundnum sálmum, tilbeiðslu- og lofgjörðartónlist yfir í sveitatónlist, jass, popptónlist, rokk, rapp, reggí að ógleymdri gospeltónlist. Hlustendur ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi og sem fellur að þeirra tónlistarsmekk.

Bænaþjónusta
Hluti þjónustu Lindarinnar er í því fólginn að veita hjálp í erfiðleikum, biðja fyrir fólki og trúa á möguleika Guðs til hjálpar á erfiðum tímum. Á fyrsta starfsári Lindarinnar bárust rúmlega 5.000 bænarefni. Á árinu 2004 voru bænarefnin rúmlega 26.000. Bænastundir voru þá þrisvar á dag. Klukkan 10:30, 16:30 og 22:30. Hægt er að koma bænarefnum til Lindarinnar í síma 567-1818, í gegnum heimasíðuna eða með því að senda póst beint á baenarefni@lindin.is. Ekki þarf að gefa upp persónu upplýsingar (s.s. nafn) hvorki hjá þeim sem hringir né þeim sem bænarefnið varðar.

Þættir
Daglega eru margir þættir í boði, bæði frumfluttir og endurfluttir. Ljáðu mér eyra er í umsjón Hafliða Kristinssonar guðfræðings og fjölskylduráðgjafa. Þátturinn tekur á daglegum viðfangsefnum sem fjölskyldur lenda í og kemur með tillögur að lausn. Daglega er fluttur Boðskapur dagsins í umsjá forstöðumanna og presta í kirkjum landsins. Fjöldi annarra fræðsluþátta heyrast á Lindinni allan sólarhringinn. Nánari upplýsingar um tímasetta dagskrá okkar er að finna á vefsíðunni lindin.is.

Lindin myndbandagerð
Upp úr 1999 var farið af stað með myndbandaframleiðslu. Hugmyndin var að efla kristilega kvikmyndagerð með framleiðslu á barnaefni og ICI biblíuskólaefni. Síðan þá hefur Lindin myndvinnsla stækkað og þróast sem hluti af af trúboðsstarfi Lindarinnar. Markmiðið er fyrst og fremst að lyfta upp nafni Jesú Krists ásamt því að skapa jákvæða ímynd af kristinni kirkju í dag.

Mikið myndefni hefur verið tekið upp í gegnum árin, allt frá kynningar- myndböndum og auglýsingum til heimildamynda. Á Lindinni er myndver og góð aðstaða til að framleiða sjónvarpsefni og efni fyrir samfélagsmiðla. Hægt er að framleiða fræðslu- eða heimildamyndir, kynningar, auglýsingar, barna- og unglingaefni, spjallþætti og fleira.
Þar sem Lindin er byggð á kristilegum grunni, fylgir hún ákveðinni stefnu í vali á framleiðslu sjónvarpsefnis. Þannig verða þau verkefni sem Lindin tekur að sér, að skoðast í ljósi þeirrar grundvallarafstöðu sem starfið byggir á.

Útgáfustarfsemi Lindarinnar
Lindin hefur staðið fyrir útgáfu á fjölmörgum bæklingum, trúarstyrkjandi blöðungum og kennslubókum. Stærsta útgáfuverkefni Lindarinnar er án efa hasarblaðið Power Mark. Þetta er 12 blaða sería á íslensku með ævintýrum og spennu fyrir krakka á öllum aldri með jákvæðum kristilegum boðskap. Hvert blað er um 28 síður í lit.

Lindin stóð fyrir útgáfu bókarinnar Gull og silfur en í henni er að finna safn af Biblíuversum sem raðað er eftir efni. Safninu er ekki ætlað að tiltaka öll vers Biblíunnar heldur að sjá lesandanum fyrir fljótlegri aðferð við að finna vers sem fjalla um 40 mismunandi efni. Bókin er tilvalin tækifærisgjöf handa vinum, vinnufélögum og ættingjum.

Útsendingarrásir Lindarinnar
Akureyri FM 103,1
Húsavík FM 104,5
Höfn FM 102,9
Ísafjörður FM 102,9
Ólafsfjörður FM 106,5
Selfoss FM 105,1
Siglufjörður FM 106,5
Stór – Reykjavíkursvæðið FM 102,9
Suðurland FM 88,9 og 105,1
Vestmannaeyjar FM 88,9
Vopnafjörður 102,9
Útsending á Veraldarvefnum er www.lindin.is

Ef þú hefur spurningar, hafðu þá samband í síma 567-1818

Lindin, kristið útvarp │ Krókhálsi 4 │ 110 Reykjavík │ kt. 691194-2729 │ S: 567-1818 │ lindin@lindin.is