Biblíuhugleiðingar og bænir

Fyrir átta daga vikunnar

1. DAGUR

Lát réttinn vella fram sem vatn og réttlætið sem sírennandi læk (Amos 5:24)

Amos 5:22-25

Lúkas 11:37-44

 

Hugleiðing

Við kristnir menn teljum stundum bæn og guðsþjónustu mikilvægari en umhyggju fyrir hinum fátæku og undirokuðu. Stundum biðjum við í kirkjunni en í verkum okkar kúgum við náungann eða arðrænum náttúruna. Kristnir menn í Indónesíu eru meðvitaðir um að sumt fólk í landinu er ákaft í að iðka trú sína, en niðurlægir jafnframt þá sem játa önnur trúarbrögð, stundum jafnvel með valdi.

Í Lúkasarguðspjalli bendir Jesús okkur á því að hið ytra tákn um sanna tilbeiðslu er réttlát hegðun og hann fordæmir harkalega alla sem sýna ekki réttlæti.

Spámaðurinn Amos minnir á að Guð hafnar tilbeiðslu manna sem vanrækja réttlæti þar til þeir láta „réttinn vella fram sem vatn og réttlætið sem sírennandi læk“  (5:24).

Amos krefst þess að þjónustu við Guð og réttlæti megi aldrei skilja að. Þegar kristnir menn vinna saman að því að bæta stöðu hinna fátæku og undirokuðu styrkir það samfélagið þeirra á milli og við þríeinan Guð.

 

Bæn

Guð útlendinga, munaðarlausra og ekkna,

þú sýnir okkur leið réttlætisins.

Hjálpa okkur til að fylgja þér og þjóna þér,

með því að iðka réttlæti.

Lát okkur í sameiningu þjóna þér –

ekki aðeins með hjarta og huga,

heldur einnig með gerðum okkar.

Leið okkur með Heilögum Anda,

svo að við vinnum að réttlæti alls staðar

og framlag okkar veiti mörgum styrk.

Í Jesú nafni.

Amen.

 

 

2. DAGUR

En þegar þér talið, sé já yðar já og nei sé nei (Matteus 5:37)

Efesusbréfið 4:22-25

Matteus 5:33-37

 

Hugleiðing

Ofbeldi gagnvart náunga okkar birtist ekki aðeins í líkamlegum árásum og ránum heldur einnig í slúðri og illgjörnum sögusögnum. Í fjölmiðlum ná ósannindi víðtækri útbreiðslu á stuttum tíma. Kristnir menn í Indónesíu eru meðvitaðir um að sumir trúarhópar – þar á meðal kristnir – breiða út lygar og fordóma um aðra trúflokka með þessum hætti. Ótti og hótun um hefndaraðgerðir getur gert fólk tregt til að verja sannleikann og getur einnig valdið því að þeir kjósa að þegja vegna óréttmætra og upploginna ásakana sem miða að því að valda ótta.

 

Jesús segir: „En þegar þér talið, sé já yðar já og nei sé nei. Það sem umfram er, kemur frá hinum vonda.“ Fals eyðileggur gott samband milli einstaklinga sem og milli hópa og kirkna. Óheiðarleiki skaðar einingu kirkjunnar. Textinn úr Efesusbréfi minnir okkur á að við erum einn líkami í Kristi. Hann kallar okkur til heiðarleika og gagnkvæmrar ábyrgðar svo að samfélag okkar megi vaxa. Ef við sinnum því mun ekki hinn illi andi heldur Heilagur Andi Guðs vera með okkur.

 

Bæn

Guð réttlætisins,

gef okkur visku til að greina rétt frá röngu

Hjálpa okkur til að vera heiðarleg og segja sannleikann.

Gefðu okkur hugrekki til að standa með sannleikanum,

jafnvel þótt aðrir snúist á móti okkur.

Forða okkur frá því að dreifa lygum.

Hjálpa okkur til að efla einingu og frið

og boða öllum fagnaðarerindið.

Þess biðjum við í nafni Sonar þíns, Jesú Krists.

Amen.

 

3. DAGUR

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur (Sálmur 145:8)

Sálmur 145:8-13

Matteus 1:1-17

 

Hugleiðing

„Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar,“ segir sálmaskáldið og boðar kærleika Guðs sem er hafinn yfir öll mörk milli þjóða, menningar og jafnvel trúarbragða. Ættartala Jesú í Matteusarguðspjalli endurspeglar þessa breidd. Í fornri menningu voru konur oft taldar skipta litlu máli, eða þær voru álitnar eign feðra sinna og eiginmanna. Mattheus aftur á móti nefnir fjórar konur meðal forfeðra Jesú. Tvær þeirra, Rut og Rahab, voru heiðnar. Þrír aðrir forfeður á listanum voru þekktir fyrir syndir sínar, þar á meðal hinn ótrúi Davíð konungur. Með því að nefna þau í ættartölu Jesú og gera þau þannig að hluta af sögu Guðs og mannkyns, sýnir það að hjálpræðisáætlun Guðs nær til allra án tillits til uppruna – karla og kvenna, syndara og réttlátra.

 

Í Indónesíu eru meira en 17.000 eyjar og fleiri en 1.340 mismunandi þjóðernishópar, og fylgja mörk milli þjóðarbrota oft söfnuðum. Það getur þýtt að sumir telja sig eina þekkja sannleikanum og skaða þannig einingu kirkjunnar. Í heimi nútímans þar sem í þjóðernishyggja, trúarlegt ofstæki og þröngsýni fara vaxandi, getur kristið fólk þjónað mannkyninu með því að bera í sameiningu vitni um takmarkalausa ást Guðs og boða með sálmaskáldinu að „Drottinn er náðugur og miskunnsamur“ öllum.

 

Bæn

Faðir, Sonur og Heilagur Andi, þríeinn Guð.

Við lofum þig fyrir þína miklu dýrð,

sem birtist í öllu sköpunarverkinu.

Gefðu okkur opið hjarta,

svo að við sinnum öllum þeim

sem eru órétti beittir.

Leyfðu okkur að vaxa í kærleika

og sigrast á fordómum og óréttlæti.

Hjálpa okkur með náð þinni

að virða hvern einstakling eins og hann er,

svo að við getum fundið einingu í öllum fjölbreytileika okkar.

Þess vegna biðjum við í þínu heilaga nafni.

Amen.

4. DAGUR

Látið yður nægja það, sem þér hafið (Hebreabréfið 13: 5)

 

Hebreabréfið 13:1-5

Matteus 6:25-34

 

Hugleiðing

Hebreabréfið varar við yfirdrifinni ást á peningum og efnislegum gæðum. Frammi fyrir ótta okkar á því að hafa aldrei nóg, minnir textinn á umhyggju Guðs og sannfærir okkur um að Guð mun aldrei yfirgefa sköpun sína. Guð hefur skapað frjósaman jarðveg, ár og vötn og séð fyrir miklum matvælum og drykkjarvatni fyrir allar lifandi verur, en samt skortir marga grundvallarnauðsynjar. Mannlegur veikleiki og græðgi valda oft til spillingu, óréttlæti, fátækt og hungri. Það getur verið freistandi að safna peningum, mat og náttúruauðlindum fyrir okkur sjálf, okkar eigið land eða eigin þjóð, í stað þess að bera umhyggju fyrir öðrum og deila því sem við höfum með þeim.

En Jesús kennir okkur að helsta áhyggjuefni okkar ætti ekki að vera efnislegir hlutir. Við ættum fyrst að leita Guðs ríkis og réttlætis og treysta því að himneskur faðir okkar muni sjá fyrir okkur.

Sumar kirkjur hafa á undanförnum árum stutt minni kirkjur í dreifbýli á mismunandi vegu, fjárhagslega, persónulega og með fræðslu. Með slíkum einföldum og hagnýtum dæmum um gagnkvæman kærleika, sýna þær þá einingu í trú með bræðrum sínum og systrum sem Guð gefur kirkjunni. Ef við lifum einföldu lífi, ekki knúin áfram af lönguninni til að afla meira fjár en við þurfum og safna birgðum fyrir framtíðina, þá munum við geta gert jörðina, sameiginlegt heimili okkar, sanngjarnari stað.

 

Bæn

Miskunnsami Guð,

við þökkum fyrir ríkulegar gjafir þínar.

Hjálpa okkur að taka af auðmýkt og þakklæti

á móti öllu hinu góða úr hendi þinni.

Gefðu okkur ánægju og vilja

til að deila með þeim sem þjást í neyð,

svo að allir megi upplifa þá einingu í kærleikanum

sem kemur frá þér, þríeini Guð,

sem lifir og ríkir um aldir alda.

Amen.

 

5. DAGUR

Að flytja fátækum gleðilegan boðskap (Lúkas 4:18)

 

Amos 8:4-8

Lúkas 4:16-21

 

Hugleiðing

Amos gagnrýnir þá sem svíkja fátæka og arðræna þá til þess að græða sem mest sjálfir. Hann minnir einnig á að Guð sér illvirki þeirra og gleymir þeim aldrei. Guð heyrir kvein fórnarlambanna yfir óréttlætinu og yfirgefur aldrei þann sem er kúgaður og sætir illri meðferð.

Við búum í hnattvæddum heimi þar sem útskúfun, arðrán og óréttlæti eykst sífellt.

Bilið milli ríkra og fátækra breikkar hratt. Árangur á sviði efnahagsmála skiptir nú meginmáli í samskiptum þjóða, ríkja og hópa. Efnahagsvandræði valda oft spennu og árekstrum milli þeirra. Það er erfitt að búa við frið þegar réttlæti ríkir ekki.

Fyrir sameiginlega skírn okkar höfum við öll öðlast hlutdeild í því spámannlega hlutverki Jesú að boða fátækum og veikburða mönnum fagnaðarboðskapinn. Ef við tökum þetta hlutverk alvarlega mun andi Drottins hvíla á okkur og gera okkur fær um að greiða veg réttlætisins. Heiður okkar sem kristinna manna skyldar okkur að tala og breyta þannig að fólkið sem við umgöngumst daglega sjái hvernig orðin úr spádómsbók Amosar fullkomna það sem Jesús boðaði í Nasaret.

 

Bæn

Guð, Faðir okkar,

fyrirgefðu okkur valdagræðgina

og vernda okkur frá þeirri freistingu

að kúga aðra.

Gefðu okkur heilagan samfélagsanda þinn

svo að við lifum í einingu með náunga okkar

og öðlumst hlutdeild í verki Sonar þíns, Jesú,

svo að það fyrirheit hans rætist

að allir menn frelsist undan áþján fátæktar og kúgunar.

Þess biðjum við í nafni hans.

Amen.

 

 

6. DAGUR

Drottinn allsherjar er nafn hans (Jeremía 10:16)

Jeremía 10:12-16

Markús 16:14-15

 

Hugleiðing

Gervöll sköpunin opinberar dásemdarmátt Guðs. Tign Guðs birtist í gervallri sköpuninni: „Drottinn allsherjar er nafn hans.“

Í dag stöndum við hins vegar frammi fyrir umhverfisvá á heimsvísu þar sem lífi sjálfrar náttúrunnar er ógnað. Græðgin hefur knúið marga til að ofnýta sköpunarverkið langt umfram þolmörk. Í nafni hagvaxtar eru skógar höggnir og með ýmissi annarri umhverfismengun ógnar það nú bæði landi, lofti, ám og vötnum. Afleiðingarnar eru þessar: Landbúnaður verður óframkvæmanlegur, skortur er á drykkjarvatni og dýrategundir deyja út. Með hliðsjón af þessu er gagnlegt að minnast þess að eftir upprisu sína fékk Jesús lærisveinum sínum það hlutverk að boða fagnaðarerindið „öllu mannkyni“. Enginn hluti sköpunarinnar stendur utan við þá áætlun Guðs að endurnýja allt. Því verðum við að snúa við og meta gildi sköpunarinnar og sættast við hana í stað þess að ofnýta hana.

Umhverfishreyfingar í Indónesíu og mörgum öðrum löndum, þar sem fólk af mörgum trúarbrögðum starfar saman, eru kristnu fólki hvatning um að gera kirkjurnar umhverfisvænni og berjast gegn allri mengun. Þetta starf sameinar kristna menn í vitnisburði þeirra um skapara sinn, því að „hann er skapari alls“. Þegar við störfum saman með öðrum kristnum mönnum að því að verja okkar sameiginlega jarðneska bústað, þá er það engin aðgerðastefna. Miklu fremur fylgjum við þannig boði Drottins um að boða öllu sköpunarverkinu fagnaðarboðskapinn um kærleika Guðs, sem læknar og endurnærir.

 

Bæn

Kærleiksríki Guð,

fyrir þitt orð voru allir hlutir skapaðir.

Við þökkum þér fyrir alheiminn

þar sem dýrð þín, fegurð og gæska opinberast.

Gefðu okkur visku til að ganga vel um jörðina

og verða sameiginlegir spámenn og spákonur fagnaðarboðskapar þíns

í gervöllu sköpunarverki þínu.

Amen.

 

7. DAGUR

Kona, mikil er trú þín (Matteus 15:28)

Fyrri Samúelsbók 1:13-17

Matteus 15:21-28

 

Hugleiðing

Elí tortryggði hina innilegu og ástríðufullu bæn Hönnu. Hann hélt að grátbænir hennar væru raus í drukkinni konu og ávítaði hana þess vegna. En andsvar hennar og ákall um að hafna henni ekki og líta á hana sem „úrhrak“, mýkti hjarta hans og hann sendi hana burt frá sér með blessun. Eins var ástatt um kanversku konuna sem  kom til Jesú og grátbað hann um að lækna dóttur sína. Hann vísaði henni í upphafi frá sér og sagðist aðeins vera kominn til manna af sinni eigin ætt. En hún hætti ekki að sárbiðja hann og nauða í honum að lækna dóttur sína, og loks uppfyllti Jesús ósk hennar af því að hann sá hina miklu trú hennar. Í báðum tilvikum er um að ræða konu sem í upphafi var lítils metin og talin óverðug, en mælir síðan spámannleg orð sem ná til hjartans og greiða veg til lækningar og hjálpræðis.

Enn á okkar tímum hlusta menn ekki á raddir kvenna og láta sér fátt um þær finnast. Jafnvel í kirkjum okkar erum við oft samsek í þeirri viðleitni menningar okkar að gera lítið úr konum. Þegar kristnir menn gera sér grein fyrir þessum misbresti sínum sjá þeir enn betur hversu hræðilegt ofbeldi gegn þeim konum og börnum er, sem eru numin brott með valdi af heimilum sínum og verða fórnarlömb alþjóðlegs mansals. Þau sæta oft, ásamt með farandverkakonum, ómannúðlegri meðferð, svipt grund­vallar­mann­réttindum. Á síðari tímum hafa kirkjurnar í Indónesíu sameiginlega barist gegn mansali og kynferðislegri misnotkun á börnum. Þessi viðleitni þeirra og fólks af öðrum trúarbrögðum er afar mikilvæg, ekki síst i ljósi þess að fjöldi fórnarlamba í sumum hlutum landsins vex dag frá degi.

Þegar kristnir menn biðja saman og lesa í heilagri ritningu og heyra þá um leið rödd Guðs, uppgötva þeir að Guð talar enn rómi þeirra sem mest er níðst á í þjóðfélaginu. Þegar þeir í sameiningu heyra raust Guðs, öðlast þeir styrk til að berjast sameiginlega gegn mansali og öðrum glæpum.

 

Bæn

Miskunnsami Guð, þú ert uppspretta mannlegrar virðingar.

Fyrir náð þína og mátt mýktu orð Hönnu hjarta prestsins Elí.

Fyrir náð þína og mátt snertu orð kanversku konunnar Jesú,

og hann læknaði dóttur hennar.

Veit þú að viðleitni okkar geri einingu kirkjunnar sýnilega,

og kraft til að hafna sérhverri valdbeitingu gegn konum.

Hjálpa þú okkur að meta þær gjafir andans að verðleikum

sem konur færa kirkjunni.

Þess biðjum við fyrir Jesú Krist, Drottin vorn,

sem með þér ríkir í einingu Heilags Anda um aldir alda.

Amen.

 

8. DAGUR

Drottinn er ljós mitt og fulltingi (Sálmur 27:1)

Sálmur 27:1-4

Jóhannes 8:12-20

 

Hugleiðing

Á átta dögum þessarar bænaviku fyrir einingu kristinna manna höfum við í daglegum hugleiðingum okkar fjallað um þau margvíslegu vandamál sem heimurinn þarf að kljást við um þessar mundir – græðgi, ofbeldi, útskúfun, arðrán, fátækt, umhverfismengun, hungur og mansal. Kirkjurnar í Indónesíu líta á þessi vandamál sem áskorun sem snertir alla kristna menn. Þeir eru meðvitaðir um það og játa að margar þessara synda hafa einnig saurgað líf kirknanna og skaðað þannig einingu þeirra og áhrifamátt vitnisburðar þeirra í augum heimsins. Á sama tíma minnast þeir einnig fjölmargra góðra dæma um það hvernig kirkjurnar geta í sameiningu borið vitni um einingu þeirra í Kristi.

Dag eftir dag og ár eftir ár, og sérstaklega þó í bænavikunni fyrir einingu kristninnar, koma kristnir menn saman til þess að biðjast fyrir sameiginlega, játa trú sína sem þeir voru skírðir til, hlýða á rödd Guðs í heilagri ritningu og biðja saman fyrir  fyrir einingu líkama Krists. Þeir eru sér meðvitaðir um það að þríeinn Guð er uppspretta allrar einingar og að Jesús Kristur er ljós heimsins. Hann gefur þeim sem fylgja honum fyrirheit um ljós lífsins. Margvíslegar myndir óréttlætis í þessum heimi fylla kristna menn sorg og reiði. En þeir missa ekki kjarkinn heldur grípa til aðgerða. Drottinn er ljós þeirra og fulltingi og kraftur lífsins og því óttast þeir ekki.

 

Bæn

Guð, þú annast okkur.

Við lofum þig

því að þú ert góður og gæskuríkur.

Þú styrkir okkur á erfiðum tímum

og sýnir okkur ljós þitt í myrkrinu.

Umbreyttu lífi okkar svo að við verðum öðrum til blessunar.

Hjálpa þú okkur að sameinast í margbreytileikanum

til tákns um samfélag þitt:

Faðir, Sonur og Heilagur Andi,

einn Guð, nú og að eilífu.  Amen.

 

 

 

Lindin, kristið útvarp │ Krókhálsi 4 │ 110 Reykjavík │ kt. 691194-2729 │ S: 567-1818 │ lindin@lindin.is