
Boðskapur dagsins │ 27. mars 2025 │ Guðrún Margrét Pálsdóttir
Því meir sem gengur á tímann sem mér er úthlutað er ég meðvitaðri um að nota hann vel. Að sjálfsögðu veit ég ekki hvað hann er langur, en ég veit að hann styttist og nú finnst mér árin hlaupa, hver mánuðurinn líður eins og örskot og ég þarf virkilega að greina og meta í hvað hann fór. Hvert stefni ég og hvaða ávexti sé ég í lífi mínu? Gæti ég notað tímann betur og gæti ég séð meiri ávöxt í lífi mínu? Klárlega! Ég veit það. Og er ég örugglega að lifa út þann draum sem Guð hafði með líf mitt þegar hann hannaði mig? Örugglega ekki til fullnustu. Ég get pottþétt betur en þetta. Ein af stóru spurningunum sem ekki bara ég, heldur við öll þurfum að spyrja okkur að gæti verið á þessa leið: Endurspeglar líf mitt áætlun Guðs og það hlutverk sem hann hannaði mig fyrir sbr. það sem stendur í Efesusbréfinu 2.10? Ef við vissum að við hefðum aðeins mánuð eftir, hvernig myndum við verja lífi okkar? Að sjálfsögðu lítur spretthlaup öðruvísi út en langhlaup en það er samt sama grunn virknin í gangi. Myndum við breyta einhverju með þá vitneskju, öðru en því að gefa í og leggja okkur meira fram um það sem við erum að gera dags daglega? Myndum við gera gagngerar breytingar, forgangsraða því mikilvæga og sortera út það sem ekki skiptir máli? Myndum við t.d. leggja meira á okkur að vinna fólk til trúar? Myndum við ef til vill vakna af svefni og fara að taka til hendinni?
Við eigum öll eftir að flytja héðan, hvaða áhrif viljum við hafa skilið eftir þegar við förum? Ég veit ekki um ykkur en ég þrái að bera meiri ávöxt. Ég vil ekki bara gera eitthvað heldur það sem Guð ætlaði mér að framkvæma meðan ég væri hér á jörðu og það er ábyrgð mín að finna út hvað það er. Guð talar við okkur öll á mismunandi hátt. Við þurfum að læra að þekkja rödd hans og hlýða því sem hann segir við okkur. Kynnum okkur Biblíuna. Við ættum ekki að sætta okkur við að ráfa í þoku því Guð vill gefa okkur stefnu og markmið.
Í Efesusbréfinu 2.8-10 segir:
„Því af náð eruð þið hólpin orðnir fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því. Við erum smíð Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka, sem hann hefur áður fyrirbúið, til að við skyldum leggja stund á þau.“
Guð hefur fyrirbúið ákveðin verk fyrir þig og mig að vinna, eitthvað sem hann er löngu búinn að plana og skrifa í bók hvers og eins okkar. Við erum eins og púsl sem hann hefur ætlað að vera á réttum stað í heildarmynd sinni svo að áætlun hans gangi upp.
Hann er leirkerasmiðurinn, við erum leirinn. Stundum mistekst kerið sem verið er að búa til og hann þarf að móta okkur að nýju. Við þurfum að vera mjúkur leir svo að hann geti mótað okkur eins og hann vill, auðmjúk og fljót að fyrirgefa og biðjast fyrirgefningar. Hvernig sem kerið okkar er, þá er mest um vert að við berum nærveru hans sem er fullkominn kærleikur. Við erum skilgreind út frá því hvað við berum en ekki endilega hvernig kerið okkar lítur út, eins og bolli sem ber kaffi er skilgreindur sem kaffibolli. Þannig ættum við að keppa eftir að bera kærleika og nærveru Guðs. Við höfum hvatninguna í 1. Kor. 14.1 að keppast eftir kærleikanum, eftir honum sem er hinn fullkomni kærleikur.
Í 1. Kor. 13. kafla er lýsing á kærleikanum sem við getum mátað okkur við: Erum við langlynd og góðviljuð? Föllum við í þá gryfju að öfunda, vera raupsöm og hreykja okkur upp? Hegðum við okkur ósæmilega?, leitum við okkar eigin? Reiðumst við eða erum við langrækin og eigum við erfitt með að fyrirgefa. Yfir hverju gleðjumst við?, óréttvísinni eða sannleikanum? Breiðum við yfir bresti fólks eða berum við þá á torg? Trúum við fólki eða tortryggjum? Vonum við það besta um fólk og umberum það? Dæmum við fólk eða fyrirgefum og umföðmum það með kærleika Krists?
Tíminn líður fljótt. Biblían hvetur okkur til að telja daga okkar til að við öðlumst viturt hjarta. Það þýðir kannski ekki bókstaflega að telja þá en að við séum meðvituð um að tíminn okkar er takmarkaður og við vitum ekki hversu langan tíma við höfum.
Pabbi minn dó skyndilega 66 ára að aldri án þess að hafa nokkurn tíma verið veikur svo ég muni. Ég man að hann og mamma komu að kveðja okkur kl. 6 að morgni. Þau voru að fara í flug til Kaupmannahafnar. Þremur tímum seinna fékk ég hringinu um að hann væri látinn. Hann lést í landganginum á leiðinni upp í flugvélina. Það var enginn fyrirvari. Nú hef ég náð sama aldri. Lífið er alls konar og við vitum ekkert hvað gerist á morgun en við getum verið viss um að við erum í Guðs hendi og getum farið héðan örugg ef við höfum sagt já við Jesú og gert hann að leiðtoga lífs okkar, frelsara og drottni. Við getum verið algjörlega örugg í hans hendi hvernig sem lífið velkist og hvenær sem það endar hér á jörðu því við vitum að þá er eilífa lífið bara rétt að byrja.
En á meðan við erum hér þá skulum við vinna hans verk, bera hans nærveru og lifa í samfélagi við hann. Að framkvæma hans vilja og vera í honum er hvort tveggja mikilvægt. Systurnar frá Betaníu, þær Marta og María voru holdgervingar að þessum tveimur þjónustum trúaðra við Jesú. Það var engin spurning í huga Jesú hvort hann mat meira.
Jesús kallaði það að vinna verk föðurins að trúa á sig. Í Jóh. 17.3 segir hann:
„Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“
Kostum kapps um að þekkja hann og unnum okkur ekki hvíldar fyrr en við eigum þessa nánd við hann og vitum hvað hann hefur í hyggju með okkur. Þar byrja ævintýrin.
Að vera samverkamaður hans eru forréttindi. Á meðan við þekkjum kannski ekki hvaða verk nákvæmlega hann hefur hannað okkur til að vinna þá getum við alltaf gert það sem við erum öll kölluð til, að segja öðrum frá fagnaðarerindinu. Þjóðin okkar er í miklum vanda sem rekja má til þess að hún hefur snúið sér frá Guði. Þetta kemur því miður sérstaklega niður á ungu kynslóðinni sem á ekki sök á vandanum.
Í Jeremía 2.10-11 stendur: „Hyggið vandlega að. Gangið úr skugga um, hvort slíkt hafi nokkurn tíma við borið! Hvort nokkur þjóð hafi skipt um guð – og það þótt þeir væru ekki guðir! En mín þjóð hefur látið vegsemd sína fyrir það sem ekki getur hjálpað.“
Það er engu líkara en að verið sé að tala um þjóðina okkar og afleiðingin endurspeglast í börnum og unglingum í miklum vanda þar sem margir foreldrar eru ráðþrota. Það er okkar hlutverk að breyta þessu. Jesús er svarið við vandanum. Ljósið hans er það sem rekur myrkrið á brott. Kærleikur hans sigrar illsku og hatur. Við erum kyndilberarnir. Látum ljósið hans skína. Sættum okkur ekki við ástandið, verum umbreytingaraflið sem samverkamenn Guðs. Hann elskar þessa þjóð og hann er verður þess að við leggjum dagskrá okkar til hliðar svo að hann megi mæta því dýrmæta fólki sem þekkir hann ekki enn.
Guðrún Margrét Pálsdóttir