
Boðskapur dagsins │ 29. jan. 2025 │ Snorri Óskarsson
Hvað má kristnin kosta?
Veist þú að árið 295 AD hafi margir kristnir neitað að gegna herþjónustu í rómverska hernum vegna trúar sinnar? Flestir urðu þeir líflátnir fyrir afstöðu sína. Þá var keisari Rómar, Galíleus, og hann vantreysti kristnum til að hlýða skipunum keisarans og hersöfðingju hins keisaralega hers vegna samviskusinnar og siðferðis sem fylgir kristinni trú.
Á þessum árum (fyrir 300AD) eru flestar sögur um ofsóknir rómverskra keisara á kristnum mönnum. Þannig gat það þá orðið að hinn kristni hermaður keisarans hafi þurft að taka þátt í ofsóknum á hendur trúsystkina sinna bara til að hlýða skipunum heiðinna hershöfðingja. Þetta var því samviskuspurning fyrir hinn kristna hvort hann ætti að afhenda ,,keisaranum” vald yfir sér með ,,eiði um skilyrðislausrar hlýðni” við keisarann. Hvor var æðri Kristur eða keisarinn.
Frá þessum ofsóknarárum er til frásaga af tveim trúsystrum, þeim Perpetuu og Felicitu og einum ungum bróður Saturus að nafni. þau voru frá Karþagó. Þau voru dæmd til dauða og áttu að mæta örlögum sínum strax daginn eftir. Þau voru geymd í sama fangaklefa um nóttina fyrir aftökudaginn. Þá nótt fékk önnur þeirra, Perpetua sýn sem var þanni:
,,Ég sá koparstiga sem náði allt til himins. Stiginn var svo mjór að aðeins einn maður gat gengið upp í einu. Báðum megin við hann foru fest sverð, spjót og fleirri vopn. Af því leiddi að sá se, gekk upp stigann í hugsunarleysi og án þess að líta í kringum sig gat átt það víst að særast. Undir stiganum lá dreki, ógurlegur að ásyndum. Hann reyndi á margvíslegan hátt að hræða þá sem fóru upp stigann og draga kjark úr þeim, svo að þeir reyndu að ekki.
Í sýninni fór Saturus fyrst upp stigann. Þegar upp var komið snéri hann sér við og kallaði á systurnar að gæta sín á drekanum undir stiganum. Hann vildi bíta þær. Svo sagði hann: ,,Perpetua, ég bíð eftir þér”!
Perpetua svaraði: ,,Vegna Jesú mun drekinn ekki gera mér neitt mein.”!
Sýnin var lengri en það þótti merkilegt að dauða þessara trúsystkina bar að í sömu röð og draumurinn/ sýnin greindi frá.
Perfetua sagði enn fremur að þegar hún kom upp stigann steig hún inní stóran og fagran trjágarð. Í honum miðjum sá hún gráhærðan mann sem var klæddur eins og hirðir. Hann var að mjólka hjörð sína. Umhverfis hann stóðu þúsundir manna í hvítum klæðum.
Hirðirinn leit upp og sagði:,,Velkomin barnið mitt”!
Hann kallaði ennfremur á hana og gaf henni stykki af mjólkurosti. ,,Ég tók ostinn í hönd mína og neytti.”!
Þess má geta að í frumkristni var nokkuð um það að við heilaga kvöldmáltíð neyttu menn osta í stað brauðs.
Perpetua sagði enn fremur að eftir þessa sýn hafi hún alveg hætt að setja von sína á þetta jarðneska líf! (tekið úr bókinni Kristnir pílsarvottar eftir Carl Björkquist sem Ásmundur Eiríksson íslenzkaði og gefin út af Fíladelfíuforlagi 1949)
Draumar um ,,himnastiga” virðast birtast í nokkrum tilfellum í gegnum Mannkynssöguna. Sá þekktasti er auðvitað draumur Jakobs þegar hann var í Betel og Guð vitjaði hans þar í draumi. Annar himnastigi birtist Perpetuu sem ég greindi frá hér áðan og sá þriðji sem vert er að skoða er draumur Ólafs helga, Noregskonungs sem hann dreymdi nóttina fyrir dauða sinn og sagt er frá í Heimskringlu Snorra Sturlusonar í kafla 214, en þar segir: ,,Finnur (Árnason) mælti. Hvað dreymdi þig, konungur þess er þér þykir svo mikil missa í er þú vaknaðir eigi sjálfur”?
Þá segir konungur draum sinn að hann þóttist sjá stiga hávan og ganga þar eftir í loft upp svo langt að himininn opnaði og þangað var stiginn til. ,,Var ég þá”, segir hann, ,,kominn í efsta stig er þú vaktir mig.”
Megum við læra af þessum sögum hvernig Guð vitjar okkar í draumum og nætursýnum?
Og Guð sagði við Móse, Mirjam og Aron: ,,Heyrið orð mín. Þegar spámaður er meðal yðar, þá birtist ég honum í sýn eða tala við hann í draumi. Ekki er því þannig farið með Móse. Honum er trúað fyrir öllu húsi mínu. Ég tala við hann munni til munns, berlega og eigi í ráðgátum, og hann sér mynd Drottins. Og hví skirrðust þér eigi við að mæla gegn þjóni mínum, í gegn Móse? (IV.Mós. 12: 6 – 8)
Guð blessi ykkur. Kær kveðja Snorri Óskarsson