Í þörf fyrir náð Guðs

Grace-of-God

Boðskapur dagsins │18. mars 2025│Aðalsteinn Már Þorsteinsson

Ég heiti Aðalsteinn Már Þorsteinsson og sendi boðskap dagsins norðan úr Þingeyjarsveit í dag.

Ég vil byrja á því að setja fram stóra fullyrðingu án þess þó að vísa til nokkurra sannanna að baki henni aðra en þá að mér finnst hún hljóti að vera sönn. Alls staðar í öllu í allri veröldinni gilda alltaf einhver lögmál. Sum lögmál þekkjum við sem alveg eða því sem næst algild – líkt og náttúrulögmálin. Önnur eru sett og samin af mönnum og geta því verið ýmist góð eða slæm, sanngjörn eður ei, réttlát eða ranglát. Að auki könnumst við velflest við óræð lögmál sem óljóst er hver eru eða hvernig þau virka hverju sinni eins og frumskógarlögmálið og lögmál um orsök og afleiðingu. Sum lögmál, eins og markaðslögmálið t.d., eru þó ýmsir ánægðir með og nýta sér, þegar það er þeim í hag, þó þau geti reynst gremjandi Þrándur í Götu á öðrum tímum.

Til eru líka lögmál sem eru með öllu óskráð og sum hver svo sértæk að eingöngu lítill, afmarkaður og reyndur hópur þekkir þau. Eins og t.d. lögmálið um að ákveðinn bolli í skápnum eða sæti á kaffistofunni sé þegar frátekið. Ég segi ekki að það sé lögmál að þetta sé svona á öllum kaffistofum en því fer nærri. Síðast en ekki síst ber auðvitað að nefna lögmálið með stóru elli, boðorðin tíu, sem Jesús einn hefur náð að lifa lýtalaust eftir, þrátt fyrir að óteljandi margir aðrir hafi reynt í gegnum aldirnir.

Og þó svo að flestum sé það fullljóst að við náum aldrei að uppfylla Boðorðin leggja mörg okkar sig dag hvern fram um að færast örlítið nær því. Fyrir náð hefur Guð leyst okkur undan lögmálinu. Jesús Kristur vann það náðarverk að taka á sig refsinguna, hann er hin eina sanna syndafórn sem þvær burt allar syndir. Viðleitni okkar til þess að heiðra lögmálið engu síður er því lítið annað en virðingar- og þakklætisvottur til Guðs fyrir hans náð og endurlausn. Það er þó ekki af þakklætinu einu sem við leitumst við að heiðra lögmálið því margt bendir til þess að það sé einfaldlega góð leið til farsæls lífs enda fátt, ef nokkurt, sem toppar þau fyrirheit sem Biblían gefur hverjum þeim sem elskar Guð af öllu hjarta, sálu og mætti sínum og þjónar náunganum.

Og fyrirheit Biblíunnar eru sönn, þau rætast, um það hafa miljónir fylgjenda Jesú Krists vitnað í gegnum aldirnar. Það hef ég og fundið sjálfur. Engin lögmál fá þó leitt okkur til lífsins því líkt og Páll útlistar í bréfi sínu til Rómverja þá reynist boðorðið, sem átti að vera til lífs, til dauða þar eð það gefur syndinni færi á að lifna við, vekja girndir, tæla og deyða. Það er Jesús Kristur sem einn frelsar og leiðir okkur til lífsins en hlutverk lögmálsins að opna augu okkar fyrir því og sjá að þrátt fyrir vilja skortir okkur í raun sanna getu til góðs, eðli okkar er spillt og við erum því í bráðri þörf fyrir náð Guðs. Árangur okkar og staða okkar verður ekki mæld í því hver við erum og hverju við höfum áorkað heldur því hver hann er og hverju hann fékk áorkað fyrir okkur.

Í Jesú Kristi opinberar Guð réttlæti sitt og réttlætir hvern þann sem trúir á Jesú. Enginn getur hrósað sér því það er fyrir náð með endurlausn í Kristi Jesú sem við þiggjum hið eilífa líf að gjöf. Þrátt fyrir þessa miklu og óumræðilegu gjöf hendir það marga enn að ætla sér að réttlætast með lögmáli. Sjálfsréttlæting og eigin upphafning í fullvissu um eigið ágæti byggð á heimatilbúnum stöðlum í fyrirmyndar breytni samanborið við þau hin, sem talin eru ekki þekkja rétta Guði þóknanlega breytni, leiðir þó ekki til annars en að fella niður náðina.

Á þetta bendir Páll réttilega í 5. kafla bréfs síns til Galatamanna. Þau sem þrátt fyrir þá alvarlegu afleiðingu sem það hefur að feta slíka braut, það leiðir til þess að viðkomandi verður viðskila við Krist, finna til eigin styrks og máttar í fjölda og reyna því oft að laða fleiri á sinn veg. Varnarorð Páls eru því jafn gild í dag sem fyrr. Stöndum stöðug. Látum ekki leggja á okkur ánauðarok. Því við erum kölluð til frelsis. Þetta frelsi, sem okkur hefur óverðskuldað áskotnast, höndlum við þó ekki, breyskar manneskjurnar, á nokkurn annan hátt en þann að lifa í andanum, þ.e. að lifa í nánu samfélagi við Jesú Krist, leidd af Guðs Heilaga anda sem býr hið innra með okkur.

Þetta er okkur dagleg áskorun, ekki hvað síst fyrir þá staðreynd að líf með Jesú krefst bæði hógværðrar og auðmýktar. Vissulega liggur mikið við, sjálft líf okkar, og því kannski ekki undarlegt að sum gerist heldur kappsöm, spenni bogann of hátt, og ætli sér að bjarga fleirum en sér sjálfum. Páll hefur einmitt fyrra bréf sitt til Tímóteusar á því að vara við villukennendum sem telja sig vera að útskýra lögmálið fyrir öðrum. Páll segir þá gefa sig að kynjasögum og öðru sem miklu frekar eflir þrætur en trúarskilning. Slíkir aðilar skilji í raun ekki sjálfir hvað þeir eru að segja né hvað það er sem þeir eru að reyna telja öðrum trú um – enda sé þetta innantómt orðagjálfur.

Farísear fyrri tíma eru ekkert frábrugðir samtíma okkar. Á öllum tímum má finna slíka sem í vandlætingu sinni vilja koma okkur undir lögmál, leggja á okkur ánauðarok, stundum ómeðvitaðir um það glapræði sem því fylgir að ætla sér að treysta á eigin réttlætingu fyrir lögmálsverk. Við þurfum að þora að ávíta slíka siðapostula líkt og Jesús gerði og minna þá á að halda sig við þau markmið með fræðslu að vekja kærleika af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsninslausri trú. Höfum samt í huga að áminna mildilega því það kann að henda okkur öll að missa sjónar af réttum skilningi svo við hættum að þekkja réttlætið sem Guð gefur. Þá tökum við til við að reyna að ávinna okkur það sjálf í stað þess að gefa okkur á vald réttlætinu frá Guði.

Ég bið:  Ég þakka þér Jesús Kristur, Drottinn minn og frelsari, að þú hefur leitt lögmálið til lykta svo að nú réttlætis sérhver sá sem trúir. Rita þú lögmál kærleikans á hjörtu okkar svo það megi vera eina lögmálið sem við beygjum okkur undir. Leið okkur í því áfram af anda þínum að við megum lifa frjáls og leiða aðra til frelsisins og eilífa lífsins í þér. Í Jesú nafni. Amen.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson

Lífsmótun, Hjalla, 650 Laugar