Biblíuhugleiðingar og bænir
Fyrir átta daga vikunnar
1. dagur: Sættir. Að varpa farmi fyrir borð
Post 27:18-19, 21
18 Daginn eftir hrakti okkur mjög undan ofviðrinu. Þá tóku þeir að ryðja skipið. 19 Og á þriðja degi vörpuðu þeir fyrir borð með eigin höndum búnaði skipsins. 21 Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: „Góðir menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þið komist hjá hrakningum þessum og tjóni.“
Sálm 85
Lúk 18:9-14
Hugleiðing
Sem kristið fólk frá mismunandi kirkjum og hefðum höfum við því miður í aldanna rás safnað saman miklum farangri sem samanstendur af gagnkvæmu vantrausti, biturleika og tortryggni. Við þökkum Drottni fyrir upphaf og vöxt samkirkjuhreyfingarinnar á liðinni öld. Samskipti okkar við kristið fólk sem hefur aðrar hefðir og sameiginlegar bænir okkar um kristna einingu hvetja okkur til að leita gagnkvæmrar fyrirgefningar, sátta og viðurkenningar. Við megum ekki leyfa farangri fortíðar okkar að hindra okkur í að nálgast hvort annað. Það er vilji Drottins að við vörpum farangrinum fyrir borð, til þess að láta Guð komast að!
Bæn
Miskunnarríki Guð,
bjargaðu okkur frá sársaukafullum minningum um fortíðina
sem særa sameiginlegt kristilegt líf okkar.
Leið okkur til sátta
svo að með heilögum anda getum við sigrast á hatri með kærleika,
reiði með hógværð
og tortryggni með trausti.
Við biðjum þess í nafni þíns ástkæra sonar, bróður okkar Jesú Krists.
Amen.
————————
2. dagur: Upplýsing: Að leita að ljósi Krists og sýna það
Post 27:20
20 Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um að við kæmumst af.
Sálm 119:105-110
Mark 4:35-41
Hugleiðing
Kristur er ljós okkar og leiðtogi. Án ljóss og leiðsagnar Krists verðum við ráðvillt. Þegar kristið fólk missir sjónar á Kristi verður það óttaslegið og sundrast hvert frá öðru. Ennfremur eru margir með góðan vilja utan kirkjunnar ófærir um að sjá ljós Krists vegna þess að með sundrungu okkar endurspeglum við ljós Krists dauflega eða byrgjum það jafnvel algerlega. Þegar við leitum að ljósi Krists, erum við dregin nær hvert öðru og endurspeglum þetta ljós betur og verðum sannarlega tákn Krists, sem er ljós heimsins.
Bæn
Guð, orð þitt er ljós á vegi okkar
og án þín erum við glötuð og ráðvillt.
Upplýstu okkur svo að með orði þínu getum við gengið veg þinn.
Megi kirkjur okkar þrá leiðsögn þína, huggun og umbreytandi návist. Gef okkur þann heiðarleika sem við þurfum
til að átta okkur á þegar við gerum öðrum erfitt um vik að sjá ljós þitt
og þá náð sem við þurfum til að deila ljósi þínu með öðrum.
Þess biðjum við í nafni Sonar þíns, sem kallar okkur, fylgjendur sína til að vera ljós í heiminum.
Amen.
————————
3. dagur: Von, boðskapur Páls
Post 27:22, 34b
22 „En nú hvet ég ykkur til að vera vonglaðir því enginn ykkar mun lífi týna en skipið mun farast. 34 […] En enginn ykkar mun einu hári týna af höfði sér.“
Sálm 27
Matt 11:28-30
Hugleiðing
Við kristið fólk sem tilheyrum kirkjum og hefðum sem ekki eru fyllilega sáttar hverjar við aðra, erum stundum vonsvikin yfir skorti á framförum í átt að sýnilegri einingu. Reyndar hafa sumir gefið upp alla von og álíta þessa einingu óframkvæmanlega hugsjón. Aðrir telja ekki einu sinni að eining sé nauðsynlegur þáttur kristinnar trúar sinnar. Þegar við biðjum um þessa gjöf, sýnilega einingu, skulum við gera það í staðfastri trú, viðvarandi þolinmæði og einlægri von, og treysta á kærleiksríka forsjá Guðs. Sameining er bæn Drottins fyrir kirkjuna og hann fylgir okkur á þessari vegferð. Við villumst ekki.
Bæn
Miskunnsami Guð,
ráðvillt og kjarklítil, snúum við okkur til þín.
Styrk okkur með gjöf vonarinnar.
Megi kirkjur okkar vona og keppa að þeirri einingu
sem Sonur þinn bað fyrir í aðdraganda þjáninga sinna.
Við biðjum um þetta í nafni hans sem lifir og ríkir með þér og Heilögum Anda um aldir alda.
Amen.
————————
4. dagur: Traust: Verið óhrædd, trúið
Post 27:23-26
23 „Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég heyri til og þjóna og mælti: 24 Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Guð hefur gefið þér alla þá sem þér eru samskipa. 25 Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt. 26 Okkur mun bera upp á einhverja eyju.“
Sálm 56
Lúk 12:22-34
Hugleiðing
Í beljandi stórviðri sýndi Páll hugrekki og vongleði þvert á ótta og örvæntingu samferðamanna sinna. Okkar sameiginlega köllun um að vera lærisveinar Jesú Krists felur í sér merki um mótsögn. Í heimi sem er fullur af kvíða erum við kölluð til að vera vitni vonarinnar með því að setja allt okkar traust á kærleiksríka forsjón Guðs. Kristin reynsla sýnir okkur að Guð skrifar beint á krókóttar línur og við vitum, þvert á allar líkur, að við munum hvorki drukkna né týnast. Vegna þess að staðfastur kærleikur Guðs varir að eilífu.
Bæn
Almáttugi Guð,
persónulegar þjáningar okkar fá okkur til að hrópa af sársauka
og við kveljumst af ótta þegar við erum vitni að veikindum,
kvíða eða andláti ástvina.
Kenn okkur að treysta þér.
Megi kirkjurnar sem við tilheyrum vera merki um guðlega forsjón þína.
Gerðu okkur að sönnum lærisveinum sonar þíns
sem kenndi okkur að hlusta á orð þitt og þjóna hvert öðru.
Full af trausti biðjum við í nafni Sonar þíns og í krafti Heilags Anda.
Amen.
————————
5. dagur: Styrkur: Að brjóta brauð fyrir ferðina
Post 27:33-36
33 Undir dögun hvatti Páll alla til að neyta matar og sagði: „Þið hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og matarlausir. 34 Það er nú mitt ráð að þið matist. Þess þurfið þið ef þið ætlið að bjargast. En enginn ykkar mun einu hári týna af höfði sér.“ 35 Að svo mæltu tók hann brauð, gerði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta. 36 Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast.
Sálm 77
Mark 6:30-44
Hugleiðing
Boð Páls um að matast er hvatning til þeirra sem eru í bátnum um að styrkja sig fyrir það sem framundan er. Þessi brauðbrotning sýnir breytt viðhorf þar sem þeir sem eru í bátnum fara frá örvæntingu til hugrekkis. Á svipaðan hátt veitir evkaristían eða kvöldmáltíðin okkur fæðu fyrir ferðina og beinir okkur á ný að lífi í Guði. Við fáum endurnýjaðan styrk. Brotning brauðsins – sem er kjarni kristins samfélags og tilbeiðslu – byggir okkur upp um leið og við skuldbindum okkur til kristinnar þjónustu. Við þráum daginn þegar allir kristnir menn geta deilt kvöldmáltíð Drottins við sama borð og fengið styrk úr einu brauði og einum kaleik.
Bæn
Kærleiksríki Guð,
sonur þinn Jesús Kristur braut brauð
og deildi bikarnum með vinum sínum í aðdraganda þjáninga sinna.
Mættum við vaxa saman í nánara samneyti.
Gef okkur að fordæmi Páls og frumkristinna manna
styrk til að byggja brýr samúðar, samstöðu og sátta.
Þess biðjum við í krafti Heilags Anda og í nafni sonar þíns
sem gefur líf sitt til að við getum lifað.
Amen.
————————
6. dagur: Gestrisni: Sýnið einstaka góðmennsku
Post 28:1-2, 7
1 Nú sem við vorum heilir á land komnir fengum við að vita að eyjan hét Malta. 2 Eyjarskeggjar sýndu okkur einstaka góðmennsku. Þeir kyntu bál og hlynntu að okkur öllum en kalt var í veðri og farið að rigna.
7 Í grennd við stað þennan átti búgarð æðsti maður á eynni, Públíus að nafni. Hann tók við okkur og hélt okkur í góðu yfirlæti þrjá daga.
Sálm 46
Lúk 14:12-24
Hugleiðing
Eftir áföll og átök óveðursins á sjónum, virðist þeim sem hafa skolast upp á strendur eyjarinnar vinsamleg umönnun eyjamanna vera óvenjuleg góðvild, einstök góðmennska. Slík góðvild er tákn um mannlega samúð. Guðspjöllin kenna okkur að ef við sýnum þeim sem eru í neyð umhyggju erum við að sýna kærleika Krists (sbr. Matt 25:40). Ennfremur, þegar við sinnum hinum veiku og umkomulausu af ástúðlegri alúð, tengjum við hjörtu okkar við hjarta Guðs þar sem fátækir eiga sérstakan stað. Að taka á móti utanaðkomandi, hvort sem það er fólk af annarri menningu eða trú, innflytjendur eða flóttamenn, er bæði að elska Krist sjálfan og elska eins og Guð elskar. Sem kristið fólk erum við kölluð til að stíga fram í trúnni og ná með alltumlykjandi kærleika Guðs jafnvel til þeirra sem okkur finnst erfitt að elska.
Bæn
Guð hins munaðarlausa, ekkjunnar og hins ókunnuga,
vek í hjörtum okkar einlæga gestrisni.
Opnaðu augu okkar og hjörtu
þegar þú biður okkur um að fæða þig, klæða og heimsækja þig.
Megi kirkjur okkar taka þátt í að útrýma hungri, þorsta og einangrun
og að vinna bug á hindrunum sem koma í veg fyrir
að allir séu boðnir velkomnir.
Þess biðjum við í nafni Sonar þíns, Jesú Krists,
sem býr í minnstu systrum okkar og bræðrum.
Amen.
————————
7. dagur: Umbreyting: Breytir hjörtum og huga
Post 28:3-6
3 Páll tók saman hrísvöndul og lagði á eldinn. Skreið þá út naðra undan hitanum og festi sig á hönd hans. 4 Þegar eyjarskeggjar sáu kvikindið hanga á hendi hans sögðu þeir hver við annan: „Það er víst að þessi maður er manndrápari fyrst refsinornin lofar honum ekki að lifa þótt hann hafi bjargast úr sjónum.“ 5 En hann hristi kvikindið af sér í eldinn og sakaði ekki. 6 Þeir bjuggust við að hann mundi bólgna upp eða detta sviplega dauður niður. En þá er þeir höfðu beðið þess lengi og sáu að honum varð ekkert meint af, skiptu þeir um og sögðu hann guð vera.
Sálm 119:137-144
Matt 18:1-6
Hugleiðing
Þegar heimamenn áttuðu sig á því að dómur þeirra um Pál sem morðingja var rangur, skiptu þeir um skoðun. Hinn óvenjulegi atburður með nöðruna gerir eyjabúum kleift að sjá hlutina í nýju ljósi og það gæti undirbúið þá til að heyra boðskap Krists fyrir atbeina Páls. Í leit okkar að kristinni einingu og sáttum erum við oft hvött til að endurskoða hvernig við skynjum aðrar hefðir og menningu. Þetta krefst stöðugrar umbreytingar til Krists þar sem kirkjurnar læra að hætta að líta á aðra sem ógn. Fyrir vikið verður neikvæðum skoðunum okkar á öðrum útrýmt og við munum færast nær einingunni.
Bæn
Almáttugi Guð,
við snúum okkur til þín með iðrandi hjörtum.
Í hreinskilinni leit okkar að sannleika þínum
biðjum við að þú losir okkur við óréttmætar skoðanir á öðrum
og látir kirkjurnar vaxa að einingu.
Hjálpaðu okkur til að losna við ótta okkar,
skilja betur hvert annað og hinn óþekkta okkar á meðal.
Þess biðjum við í nafni hins réttláta,
elskaða Sonar þíns, Jesú Krists.
Amen.
————————
8. dagur: Gjafmildi. Að gefa og þiggja
Post 28:8-10
8 Svo vildi til að faðir Públíusar lá sjúkur með hitaköstum og blóðsótt. Páll gekk inn til hans, baðst fyrir, lagði hendur yfir hann og læknaði hann. 9 Eftir þetta komu aðrir þeir er sjúkir voru á eynni og voru læknaðir. 10 Höfðu þeir okkur í hávegum og er við skyldum sigla gáfu þeir okkur allt sem við þurftum til fararinnar.
Sálm 103:1-5
Matt 10:7-8
Hugleiðing
Þessi saga fjallar um að gefa og þiggja: Páll naut einstakrar góðmennsku hjá eyjabúum; Páll læknar föður Públíusar og aðra; mennirnir 276 sem hafa glatað öllu í óveðrinu fá ríkulegar vistir þegar þeir halda á brott. Sem kristið fólk erum við kölluð til að sýna óvenjulegra góðvild, einstaka góðmennsku. En til að gefa verðum við fyrst að læra að þiggja – frá Kristi og öðrum. Oftar en við gerum okkur grein fyrir njótum við góðvildar hjá fólki sem er frábrugðið okkur. Þetta vísar einnig á örlæti og lækningu Drottins. Við sem Drottinn hefur læknað berum ábyrgð á að koma því áfram sem við höfum fengið í hendur.
Bæn
Guð, gjafari lífsins,
við þökkum þér fyrir gjöf þíns miskunnsama kærleika,
sem huggar okkur og styrkir.
Við biðjum þess að kirkjur okkar
séu alltaf opnar fyrir því að þiggja gjafir þínar hver frá annarri.
Veittu okkur öllum anda örlætis
þegar við göngum saman á vegi kristinnar einingar.
Þess biðjum við í nafni Sonar þíns
sem ríkir með þér og Heilögum Anda.
Amen.