
Hinn svokallaði milljónamánuður er nýafstaðinn, en það er trúboðsátak sem fram fór í sumar í 27 borgum í Evrópu og stóð yfir frá 21. júní til 6. júlí. Reykjavík var ein af þessum borgum. Emil Hreiðar Björnsson og hin svissneska Miriam Von Rotz, sáu um undirbúning og skipulag átaksins hér á landi og eiga þau svo sannarlega þakkir skildar.
Miriam tók saman smá texta um árangurinn og er hann hér að neðan, í lauslegri þýðingu minni:
“Í milljónamánuðinum fengu um 70.000 manns um alla Evrópu að heyra boðskapinn um krossfestan og upprisinn Jesú Krist. Í Reykjavík einni saman var fagnaðarerindinu deilt 979 sinnum og við sáum 94 manns bregðast á jákvæðan hátt við fagnaðarerindinu líkt og sáðkorn sem fellur í góðan jarðveg.
Við lögðum okkar af mörkum við að deila fagnaðarerindinu og nú biðjum við ykkur að halda áfram og biðja fyrir því að fræ hjálpræðisins vaxi djúpt í hverju hjarta. Haft hefur verið samband við marga þeirra sem sögðu já við Jesú og hafa sumir mætt á samkomur og tengst trúuðum. Við skulum hafa þetta fólk í bænum okkar og biðja þess að fleiri bregðist við og hafi samband aftur, þegar við höldum áfram að fylgja þessu eftir. Trúum því að ekkert af þessum fræjum hafi verið sáð til einskis.
Ég vil þakka ykkur persónulega fyrir að ganga með mér í þessari sýn – með því að opna kirkjubyggingar ykkar, halda Glory Nights og taka þátt í bæn og útrás. Ég vil einnig þakka þeim sem studdu okkur bak við tjöldin – aðstoðuðu við flutninga, útveguðu bíla, máltíðir og fleira. Þetta virkar aðeins þegar líkami Krists kemur saman og ég tel að þetta samstarf sé fræ fyrir það sem Guð vill halda áfram að gera á Íslandi.
Hvernig mun fólk heyra nema einhver segi þeim frá? (Rómverjabréfið 10:14)
Þetta síðasta ár í undirbúningi fyrir milljónamánuðinn hefur verið mikilvæg vegferð þar sem framtíðarsýn fyrir Ísland hefur vaxið og skýrst. Ég er svo þakklát, ekki aðeins vegna þess að mörg ykkar tóku frumkvæðið opnum örmum, heldur líka vegna þess að þið tókuð mér persónulega svo vel í ykkar kirkjum og samfélögum. Ég er blessuð af gestrisninni, vináttunni og stuðningnum sem ég hef fengið.
Og síðast en ekki síst – hjartans þakkir til meðleiðtoga míns, Emils Hreiðars Björnssonar, sem sagði já við þessari framtíðarsýn og skuldbatt sig hundrað prósent til að láta hana virka.
Ég er djúpt snortin og full eftirvæntingar því Guð hefur nú sett mig á Ísland til framtíðar. Ég er sannfærð um að framundan eru mörg spennandi tækifæri til samstarfs — ekki aðeins í Reykjavík, heldur um allt land — þar sem við sjáum fagnaðarerindið ná sáningu í hjörtum fólks.
Hjartans kveðja, Miriam”
———
Við þökkum Miriam fyrir allt hennar fórnfúsa starf við Milljónamánuðinn. Hún er svo gefinn Íslandi að hún hefur nú ákveðið að setjast hér að og hjálpa okkur með framhaldið.
Hér er svo krækja inn á viðtal við Joseph og Aron. Þeir tveir eru eitt dæmi af níutíu-og-fjórum um raunverulegan árangur af þessu trúboðsátaki.
Kæri hlustandi, Guð blessi þig og þína og eigðu alveg yndislegan ágústmánuð.
Kærleikskveðja,
Hafsteinn G. Einarsson, útvarpsstjóri