
Boðskapur dagsins │ 26. ágúst 2025 │ Aðalsteinn Már Þorsteinsson
Góðan dag kæru hlustendur Lindarinnar.
Ég heiti Aðalsteinn Már Þorsteinsson, er í forsvari fyrir Lífsmótun sem m.a. gefur út Lykilorð og heilsa ykkur með boðskap dagsins norðan frá Laugum í Þingeyjarsveit.
„Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi!“ þessi heilsa Páls til Fílemons í upphafi bréfar til hans stendur einmitt í Lykilorðum fyrir daginn í dag. Raunar má finna í upphafi á öllum bréfum Páls í NT svipuð ávarpsorð. Þá er rík hefð fyrir því að prestar Þjóðkirkjunnar heilsi söfnuði sínum í upphafi prédikunar með þessum orðum. Þau ættu því að vera einhverjum hlustendum Lindarinnar nokkuð kunn. Sjálfum finnast mér þau nokkuð mögnuð enda vart hægt að hugsa sér betri leið til þess að kasta kveðju á fólk eða getum við óskað öðrum nokkurs annars fremur en að eiga Guðs náð og frið? Það væri þá ekki nema það að taka undir ávarpsheilsu Péturs í sínum bréfum sem óskar lesendunum þess að náð og friður margfaldist með þeim. Það lærðist Pétri hjá Jesú að margföldun getur teygt sig inn í hið óendanlega líkt og okkur ber að fyrirgefa náunganum sjötíu sinnum sjö og að það sem er í raun stöðugt nýtt á hverjum degi, náð Guðs, og því óendanlegt getur margfaldast.
En hví að kasta slíkri kveðju? „Náð sé með ykkur og friður!“ Á ekki sérhver sem er í Kristi náð Guðs vísa og varðveitir ekki friður Guðs hug og hjarta hvers þess sem hans er? Jú vissulega er það svo að öll Kristsbörn eiga náð og frið en stundum þarf lítið út af að bregða svo einhver herði hjarta sitt og víki af vegi auðmjúkrar iðrunar. Náð Guðs er vissulega gjöf sem við þiggjum en á sama tíma er hún þó engan veginn sjálfgefin. Þakklátur og jafnvel hróðugur má maður vera að eiga hana án þess þó að hreykja sér af því að hafa eignast hana því óverskuldað hefur hver og einn hlotið. Við eigum allt undir náð Guðs svo vart er hægt að eiga betri ósk öðrum til handa en að hljóta einmitt hana.
Engu minna virði er að eiga frið Guðs sem er æðri öllum skilningi og ekkert annað jafnast á við. Ekkert fær raskað ró þess sem dvelur í friði Guðs, enginn ógn svo mikil, engin vá svo voveifleg, engin háski svo stór. Þegar við stöndum frammi fyrir og þurfum að takast á við áskoranir lífsins er ætíð best að leita fyrst friðar Guðs og hefja þar sína för í átt að því sem sumt hvað getur virst óyfirstíganlegt eða á allan hátt ómögulegt. Jafnframt að leita þangað hvenær sem erfiðleikarnir verða óbærilegir, verkefnin of stór eða ráðaleysið algjört. Í Guðs friði er að finna hvíld án þess þó að það sé flótti. Sá sem dvelur þar gerir það hvorki til þess að flýja undan eða fá ódýra lausn á sínum málum heldur því þar er uppspretta aukins krafts til þess að horfast í augu og takast á við málin sín. Í Guðs friðarnærveru er auk þess oft að finna nýjar hugmyndir og lausnir sem hjálpa til við að tækla vandann. Svo náð sé með þér og friður því hið síðarnefnda er engu minni ósk til þín en hin.
Kæru hlustendur, þetta er ofurtvenna sem við ættum kannski að gera meira af að biðja Guð um okkur sjálfum og öðrum til handa. „Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.“ Náð sé með þér því allt þiggur þú úr hendi Guðs, allt átt þú honum að þakka og öll þín framtíð er í hans höndum. Taktu við náðinni og þiggðu hana því ekki bara verður þú hólpin af náð fyrir trú þína heldur máttu líka vita að hvað sem framtíðin ber í skauti sér þá er öllu betra að sá sem allt hefur í hendi sér, almáttugur Faðir vor á himnum, líti til þín náðugum augum frekar en hitt. Engan rétt eða tilkall átt þú til þess að lífið fari bara um þig mildum höndum og þú sleppir billegra en aðrir frá raunum þessa fallna og synduga heims. Það er blekking, sem við viljum svo gjarnan trúa, að halda það að ekki verði lagt á neinn meira en svo að hann geti borið. Litla þörf finnst og líka þeim hafa fyrir náð sem enn telur sig sjálfan geta höndlað hvað það sem höndum ber. Jesús fetaði braut náðarinnar og þann veg kýs ég mun fremur – að náð Guðs víki ekki frá mér og reyni því í veikleikans mætti mínum að fylgja í sporin hans.
Náð sé með yður og friður. Taktu á móti friði Guðs því þar er uppspretta alls þess sem þú þarfnast til þess að bregðast við þeim verkefnum í lífinu sem koma inn á þitt borð. Þar er læknandi máttur til þess að takast á við það sem var í þinni fortíð, þar er vísdómur til þess að meta rétt þær aðstæður sem eru í þinni nútíð og þar er að finna öryggi og óttaleysi gagnvart öllu því sem þín framtíð kann að bera í skauti sér. Friður Guðs veitir þessa fullvissu sem ekkert fær raskað um að hvað sem á dynur og þrátt fyrir að stundum virðist allt stefna á hinn versta veg þá mun aldrei nokkuð fá aðskilið okkur frá kærleika Guðs. Það er vart hægt að hugsa sér nokkuð betra að eiga í víðsjárverðum heimi er stendur á vonarvöl.
„Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.“ Átt þú náð og frið? Veist þú það í huga þér? Finnurðu það í hjarta þínu? Sérðu merki þess í lífi þínu? Þú mátt vita það og getur lært að vera þess fullviss með því að rannsaka ritningarnar, með því að þekkja Guð. Þú getur fengið að reyna það og upplifa með því að opna líf þitt fyrir heilögum anda, nærveru Guðs, sem leiðir í allan sannleikann. Og þú getur tamið þér að sjá öll þau ótalmörgu stóru sem smáu tákn þess að Guðs náð og friður er yfir lífi þínu með því að beina sjónum þínum til Jesú Krists frelsara þíns og endurlausnara sem lagði líf sitt í sölurnar fyrir þig, leysti líf þitt frá gröfinni og sigraði dauðann. Hvílík náð. Fær auga þitt ekki séð?
Eitt er að eiga Guðs náð og frið með sér en annað og meira að deila því áfram. „Náð og friður margfaldist yður til handa með þekkingu á Guði og Jesú, Drottni vorum.“ segir Pétur í upphafi síðara bréfs síns. Án efa mun þessi dagur líkt og aðrir veita þér og mér tækifæri til þess að miðla af náð og flytja frið. Er þá nokkuð annað að gera en að grípa tækifærin og stuðla að margföldun þess besta sem í boði er? Náð Guðs og frið.
Ég bið: Lifandi Drottinn minn og Guð! Við þökkum fyrir þína náð. Lát hana aldrei víkja frá okkur. Vertu okkur ætíð náðugur. Fyll okkur af friði þínum og hjálpa okkur til þess að dvelja þar óháð öllum ytri aðstæðum og áreiti. Við biðjum þig almáttugi Guð að þú veitir okkur visku og kraft til þess að auðsýna öðrum af þinni náð og flytja þinn frið í orði og verki alla tíð. Lát frið þinn ríkja meðal þinna og náðina vera vort einkenni. Í Jesú nafni. Amen.
Aðalsteinn Már Þorsteinsson