Kæri hlustandi.
Ég óska þér gleðilegs árs og færi þér þakkir fyrir allar bænirnar og stuðninginn við Lindina í áranna rás. Upp er runnið nýtt ár með nýjum verkefnum, áskorunum og tækifærum.
Bara spennandi …
Við eigum öll að vinna að raunverulegum breytingum í okkar lífi. Þannig verðum við hæfari einstaklingar með hverjum deginum sem líður. Byrjum á okkur sjálfum og svo breytist nærumhverfi okkar í kjölfarið. Með því að leitast við að skilja hvað fólkið sem okkur þykir vænt um, er að upplifa, getum við verið hendur og fætur Jesú fyrir þetta fólk.
Ég rakst á athyglisverða grein á netinu frá Sightline CRU Ministry, þar sem fjallað er um sex áskoranir í vestrænni menningu sem gott er að vera meðvitaður um á nýja árinu. Ég dró saman nokkur atriði úr greininni:
Mörk raunveruleikans
Árið 2025 sáum við mikla aukningu í öllu sem tengist gervigreind. Þó hún hafi sína kosti veldur hún ruglingi. Við sjáum ljósmyndir og myndbönd sem nær ómögulegt er í fljótu bragði að meta hvort séu raunveruleg. Þróunin er hröð og óheft og mun hafa víðtækar afleiðingar á nær öllum sviðum daglegs lífs. Full ástæða er fyrir okkur að mæta þróuninni með gagnrýnu en þó opnu hugarfari.
- Gerviþarfir eru í boði allt í kringum okkur. Við þurfum að temja okkur að horfa gagnrýnum augum á allt sem í boði er. Það sem Guð hefur fyrir okkur er hins vegar ekta, það er raunverulegt og það byggir okkur upp.
Klofnir samfélagsmiðlar
Vegna háþróaðra reiknirita (algóritma), ritskoðunar og annarra þátta lesum við reglulega fréttir og efni sem er sérsniðið fyrir okkur. Þetta hefur áhrif á heimssýn okkar og skoðanir þar sem við erum stöðugt mötuð af streymi sérsniðinna upplýsinga. Tveir einstaklingar heyra fréttir af sama atburði en mynda sér ólíkar skoðanir á því sem gerðist. Þessi klofningur internetsins er að mynda smærri samfélög hugsunar og áhugamála.
- Fyrir okkur sem erum kristin er mikilvægt að fylgja ekki háttsemi þessa heims. Páll postuli minnir okkur á að láta umbreytast með hinu nýja hugarfari og læra að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.
Samsett lífssýn
92% Bandaríkjamanna hafa samsetta andlega heimssýn (og án efa á svipuð tölfræði við um okkur Íslendinga). Þeir viða að sér andlegum hugmyndum úr ýmsum áttum til að móta trú sína og hegðun. Margir á Vesturlöndum trúa á afstæðan sannleika og leita að andlegum sjónarmið sem hentar þeim frekar en að leita að því sem satt er. Margir hafa ekki áhyggjur af því hvort kristnin sé sönn eða ekki, heldur hvort hún sé góð og falleg.
- Biblían boðar algildan sannleika. Í 2. Þessalóníkubréfi 2:9 erum við vöruð við að Satan er að verki með alls kyns furðuverkum, lygatáknum og alls konar ranglætisvélum sem blekkja þau sem eru á glötunarleið. Þau glatast af því að þau vilja ekki þiggja kærleikann til sannleikans svo þau megi verða hólpin.
Einmanaleiki
Því er fleygt að við séum “tengdari” en nokkru sinni fyrr. Samt mælist einmanaleiki meiri en nokkru sinni. Hvernig getur þetta verið? Einmanaleiki stafar ekki af skorti á vinum, heldur af skorti á innihaldsríkum tengslum. Einmanaleiki jaðrar við að vera faraldur. Í dag segjast 45% ungmenna vera miðlungs eða mjög einmana, næstum 40% segjast ekki hafa neinn til að tala við og finna fyrir því að vera útundan og 45% finnst eins og enginn skilji þau. Þessi tölfræði er átakanleg.
- Jesús sagði að mikilvægasta boðorðið væri að elska Guð, og næst mikilvægast væri að „elska náunga þinn eins og sjálfan þig“ (Markús 12:31). Ef við ætlum að eiga sambönd við aðra eins og Kristur, þurfum við að elska fólk – jafnvel fólk sem erfitt er að elska.
Geðheilbrigði
Geðheilbrigði fer hnignandi. 47% ungmenna segjast vera miðlungs eða mjög þunglynd og 55% ungmenna segjast vera miðlungs eða mjög kvíðin. Á heildina litið greinir næstum einn af hverjum þremur fullorðnum frá einkennum kvíða og þunglyndis.
- Sem kristið fólk höfum við tækifæri til að mæta, annast og hjálpa fólki að tengjast þeirri hjálp sem það þarfnast. Við höfum kirkjurnar, við höfum tímann ….. við höfum “Sannleikann”.
Klámfíkn
Fjöldi kristinna og annarra sem neyta kláms heldur áfram að aukast. Nýleg rannsókn leiddi í ljós að meira en helmingur iðkandi kristinna horfir reglulega á klám. Klámneysla veldur miklum skaða á geðheilsu fólks, samböndum og sýn á kynlíf. Hægt er að öðlast raunverulegt frelsi, en það hefst með því að viðurkenna að við höfum þörf fyrir hjálp. Leitum hjálpar hjá Guði og hæfum einstaklingum og samtökum eins og þeim sem kallast Pure Desire.
Leiddu hugann að fólkinu í þínu lífi. Hvert þeirra glímir við eina eða fleiri af þeim áskorunum sem taldar eru upp hér að ofan? Þegar þú hefur fundið það fólk hvet ég þig til að taka eftirfarandi skref.
- Í fyrsta lagi skaltu biðja reglulega fyrir þessu fólki.
- Í öðru lagi skaltu læra meira um það sem það stendur frammi fyrir. Til dæmis, ef það er kvíði, skoðaðu þá úrræði sem eru í boði t.d. á resolutionmovement.org.
- Í þriðja lagi skaltu spyrja það til að skilja það betur. Sýndu því einlæga umhyggju í svörum þínum. Vertu því eins og Jesús þar sem við á og deildu því hvernig Jesús hefur fært von og tilgang inn í þitt líf.
Á nýju ári eru fjölmörg tækifæri fyrir okkur að vera til staðar fyrir fólkið í kringum okkur. Nýtum þau.
Guð blessi þig og þína. Og eigðu alveg súpergott ár framundan.
Hafsteinn Gautur Einarsson, útvarpsstjóri