Skip to content

Lindin

Lifandi útvarp

BORÐI-FORM-4650-x-550
Primary Menu
  • Heim
  • Um Lindina
    • Saga Lindarinnar
    • About Lindin
    • Hugsjón
    • Salur til leigu
    • Sagan í ártölum
    • Myndband: Tónlist og trúboð í 10 ár
    • Starfsfólk
    • Stjórn Lindarinnar
    • Lausanne sáttmálinn
    • Bréf til þín
    • Viltu hjálpa til?
    • Já, ég vil hjálpa til
    • Ertu lærisveinn?
    • Friðhelgisstefna
    • Vitnisburðir
  • Dagskrá
    • Vikudagskráin
    • Lindin „í beinni“
    • Boðskapur dagsins
      • Jesús, Jónas og Dómaldi
      • Í þörf fyrir náð Guðs
      • Vitnisburðir í Biblíunni
    • Uppáhalds lögin mín
    • FM tíðnikort
    • Brandarar
  • Bænir
  • Appið
    • Sækja Lindar appið
    • Hlusta á þætti
    • Stakir þættir
    • Spilari Lindarinnar
  • Á döfinni
    • Alþjóðleg bænavika
    • Alþjóðlegi trúboðsdagurinn
    • Bænaganga á sumardaginn fyrsta
    • Alfa námskeið
  • Hljóð og mynd
    • Upptökur og hljóðvinnsla
    • Frelsari allra tíma
  • Stuðningur
    • Nýr stuðningsaðili
    • Skattaafsláttur
    • Gjöf á móti gjöf
    • Hvað hefur Lindin gert fyrir þig?
    • Bankareikningar / Financial support
  • Gjöf-á-gjöf
  • Home
  • 2025
  • September
  • 1
  • Hvernig hefurðu það?
  • Fréttabréf

Hvernig hefurðu það?

Hafsteinn Gautur Einarsson 01/09/2025
HDI-mynd-fyrir-vefsíðuna-JP

Mér hefur verið hugsað til þess að undanförnu hvað við lifum í blessuðu samfélagi.  Við gleymum því stundum hvað við höfum það gott hér á Íslandi. Við lesum um hörmungar í öðrum heimshlutum, en gleymum að þakka Guði fyrir þá velmegun, það öryggi og það frelsi sem við búum við hér á landi. Með þessu er ég ekki að segja að hér sé allt fullkomið, en í samanburði við önnur lönd þá höfum við það bara nokkuð gott, svo vægt sé til orða tekið.

Til að renna stoðum undir þessa fullyrðingu þá langar mig að tína til töluleg gögn og staðreyndir. Skoðum málið út frá hugtakinu velmegun.

Einn mælikvarði á velmegun eru efnahagsleg gæði. Við Íslendingar erum ein ríkasta þjóð í heimi. Á mælikvarðanum verg landsframleiðsla á mann þá er Ísland í 5. sæti allra ríkja heims. Á árunum 2010-2024 óx landsframleiðsla í ESB-ríkjunum um 15% að jafnaði, í Bandaríkjunum um 30-40%, en á Íslandi um 50% á þessu tímabili. Það má telja nokkuð skýr merki um að hér sé allt á blússandi siglingu … upp á við!

Annar mælikvarði á velmegun og vellíðan fólks er frelsið sem það býr við.  Á Íslandi er ferðafrelsi, athafnafrelsi, skoðanafrelsi og trúfrelsi.  Vitanlega allt innan marka laganna sem telja verður sanngjörn hér á landi, þegar á allt er litið. En þetta er líka það sem aðrar Evrópuþjóðir búa við, svo öfundsvert þykir. Svo mjög að fólk úr öðrum heimsálfum sækir stíft að fá að flytja til Evrópu, og komast færri að en vilja. Í flestum löndum Evrópu eru nefnilega öflug velferðarkerfi, nokkurs konar öryggisnet sem grípa fólk sem missir vinnuna, heilsuna eða einfaldlega kemst í heldri manna tölu.

Með þessu er ég ekki að segja að þjóðir í öðrum heimsálfum bjóði ekki þegnum sínum upp á neitt af ofangreindu, heldur hitt, að þau eru ekki eins öflug og víðtæk, þessi velferðarkerfi, og í Evrópu.

Jafnrétti er hvergi meira en á Íslandi og standa þar Norðurlandaþjóðirnar fremstar meðal þjóða.

Enn einn mælikvarðinn á velmegun eru lífskjör.  Ísland er í 1. sæti á lista Sameinuðu þjóðanna yfir lífskjör, skv. mælingunni „Human Development Index“. Þessi mælikvarði var hannaður til að mæla þróun samfélaga í átt að bættum lífskjörum. Á þeirri mælistiku erum við sem sagt á toppnum.  HDI-vísitalan er byggð á þremur undirþáttum; lífslíkum einstaklinga, menntunarstigi og almennum lífskjörum. Ef þú vilt rýna betur í þennan kvarða þá getur þú farið inn á umrædda vefsíðu hjá UNDP.

Og eftir þennan inngang kem ég að stóru spurningunni: Af hverju er Ísland í þessari stöðu? Af hverju erum við í fremstu röð? Hvernig komum við okkur þangað? Erum við svona rosalega dugleg að við höfum unnið okkur þetta inn í aldanna rás? Eða erum við bara svona heppin?

Í þessu samhengi ber að nefna að fólk í öðrum samfélögum hefur líka verið duglegt í aldanna rás. Kínverjar hafa sýnt mikinn dugnað öldum saman, Víetnamar hafa þrælað á hrísgrjónaekrunum og Kólumbíumenn við landbúnað og kaffirækt. Afríkuþjóðir hafa líka reynt sitt til að byggja upp sín samfélög. Þar er einnig harðduglegt fólk að finna. Yfirvöld í þessum löndum hafa reynt allt til að bæta lífskjör þegnanna, en ekki hafa öll þeirra náð eins miklum árangri og Bandaríkin, Kanada og þjóðirnar í Evrópu.

Af hverju standa Bandaríkin, Kanada og Evrópuþjóðir öðrum löndum framar hvað velmegun snertir? Er einhver skýring sem blasir við?

Ég leyfi mér að koma með tillögu að svari. Og hún er sú, að kristin trú og kristin gildi fengu að skjóta rótum í þessum löndum frá upphafi. Kristinn siðaboðskapur hefur nefnilega svo góð áhrif á mannlega hugsun og gjörðir. Þessi gildi styðja við framþróun á öllum sviðum mannlegrar tilveru. Það sem Guð lætur okkur í té er það besta sem okkur býðst.  Sumir hneykslast á þeim reglum sem Biblían leggur fyrir okkur og skilja reyndar ekki ástæðuna fyrir mörgum þeirra, en mín reynsla er sú, að ef maður fylgir þessum reglum, þá blessast skrefin sem við tökum og okkur farnast betur en annars. Guð elskar okkur og vill okkur aðeins það besta.

Þegar einstaklingar fylgja Orði Guðs og þegar heilu samfélögin byggja löggjöfina, stjórnarfar og innviði á siðaboðskap Biblíunnar, þá hefur það þau áhrif að farsæld eykst samkvæmt öllum mælikvörðum.

Kristin gildi eru sótt í Biblíuna. Þar standa þau skrifuð og eru útskýrð. Mikilvægi þeirra er undirstrikað. Ég nefni hér fimm gildi sem við þekkjum öll og berum virðingu fyrir. Þessi gildi eru kærleikur, fyrirgefning, frelsi, heiðarleiki og réttlæti.  Samfélag okkar hefur að miklu leyti tekið mið af ágæti þessara gilda, því hér hafa þau skotið rótum.  Margir neita hins vegar að kannast við að þau eigi uppruna sinn í kristinni trú, en það er yfirleitt fólkið sem aldrei hefur lesið Biblíuna.  Gildin eru vitanlega mun fleiri í kristinni trú en hér ætla ég aðeins að skoða þau fimm sem ég tilgreindi að ofan.

  1. Fyrst vil ég nefna kærleikann, því hann er fremstur kristinna gilda og meginsiðferðisboðorð Ritningarinnar. Við eigum að elska bæði Guð og menn. Í Lúkasi 10:27 segir; „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Þetta gildi hefur stuðlað að mannvirðingu í vestrænum samfélögum, bættum samskiptum og með sama hætti slegið á hatur, stríð og annað ofbeldi.
  2. Svo er það fyrirgefningin. Biblían segir að við eigum að fyrirgefa þeim sem brotið hafa á okkur, sem og að fyrirgefa okkur sjálfum. Þessi persónulegi gjörningur hefur leyst margan manninn úr fjötrum og veitt frelsi. Að viðurkenna mistök sín, iðrast og fyrirgefa sjálfum sér er stórkostlegt skref í þroskaferli sérhvers einstaklings. Það er forsenda þess að geta lært af mistökunum og horft fram á við.
  3. Svo er það frelsið sem Biblían boðar svo skýrt. Á Vesturlöndum hefur einstaklingurinn frelsi til athafna, að því marki sem það skaðar ekki umhverfi hans eða annað fólk. Hann hefur frelsi til að nýta hæfileika sína til verðmætasköpunar fyrir sjálfan sig og sitt samfélag. Dæmisagan í Matteusarguðspjalli um talenturnar lýsir þessu vel (Matt. 25:14-30). Þar segir frá manni sem ætlaði úr landi en kallaði fyrst á þjóna sína og fól þeim eigur sínar til ávöxtunar. Hann ætlaðist til að þeir ávöxtuðu þessar talentur, sem ekki aðeins getur þýtt fjármuni, heldur líka hæfileikana sem Guð hefur gefið okkur í vöggugjöf.  Þessi saga, sem aðeins tekur yfir hálfa blaðsíðu í Biblíunni, er einfaldasta og skýrasta útlistun á kapítalisma sem hægt er að lesa nokkurs staðar. Já, ég sagði kapítalisma. Þegar við fáum frelsi til athafna þá blómstrum við sem aldrei fyrr. Frelsið gefur okkur möguleika til að skapa nýja hluti, stofna fyrirtæki, finna lausnir, búa til tæki, hugbúnað, lyf og hvaðeina, sem aftur blessar samfélagið sem við búum í. Þannig eiga framþróun og hagvöxtur sér stað. Þjóðfélög sem grundvölluð eru á öðrum trúarbrögðum en kristinni trú, bjóða einfaldlega ekki upp á þetta frelsi, eins og dæmin sanna. Eina undantekningin frá þessu er Ísrael, sem strangt til tekið er ekki kristið þjóðfélag, heldur byggir á gyðingatrú, en þeir hafa jú Gamla testamentið sem grunn, eins og kristin þjóðfélög gera.
  4. Heiðarleiki er gildi sem við berum virðingu fyrir. Heiðarleiki byggir upp traust sem er mikilvægt í samskiptum fólks, ekki síst í viðskiptum. Orðspor manna endurspeglar heiðarleika þeirra.  Í Sálmi 25:21 segir: „Lát ráðvendni og hreinskilni gæta mín, því að á þig vona ég.“ Spilling og mútuþægni í viðskiptum tengjast heiðarleika, eða öllu heldur skorti á honum. Mútur og spilling mælast mun algengari í löndum Afríku og Asíu, en í löndum sem byggja á kristnum gildum. Talið er að Afríkulönd tapi allt að 25% af mögulegri landsframleiðslu vegna spillingar og mútuþægni. Þessa prósentu fann ég á netinu, en ég óttast reyndar að hún sé hærri.
  5. Og að lokum vil ég nefnaa réttlæti sem líka er kristið gildi. Ritningin undirstrikar áherslu Guðs á sanngirni, jafnrétti og ráðvendni og bendir á að raunverulegt réttlæti á að vera rótgróið í framkomu okkar við annað fólk. Þau lög sem eru grundvöllur að réttarkerfi þjóða á Vesturlöndum byggja á réttlæti, a.m.k. höfðu menn leitast við að hafa réttlæti að leiðarljósi þegar lögin voru samin.

 

Nú hef ég farið um víðan völl í rökstuðningi mínum fyrir þeirri fullyrðingu að við eigum kristinni trú, og þar með kristnum gildum og siðaboðskap, allt að þakka, hve farsælt samfélag okkar er, velmegun mikil og lífskjör góð.

Ef þú ert sammála mér, þá ætti sú löngun að búa í hjarta þínu, eins og mínu, að vilja þakka þessum stórkostlega Guði okkar fyrir allt sem hann hefur gert fyrir okkur.  Við eigum því reglulega að lyfta höndum í lofgjörð til hans og syngja lofsöngva, honum til dýrðar. Hann elskar að dvelja í lofgjörð síns lýðs.

Við munum öll eftir bæninni sem flutt var í sjónvarpinu á örlagatímum fyrir nær sautján árum og hljóðar svona: „Guð blessi Ísland“.  Þarna kemur fram bæn og eindregin ósk um að Guð blessi landið okkar. Ég vil enda þennan pistil á að breyta þessu orðalagi í fullyrðingu, því ég er sannfærður um að Guð hélt utan um þjóðina og bjargaði henni úr öldudal bankahrunsins árið 2008.

Ég segi því með bros á vör og gleði í hjarta að „Guð blessar Ísland“.

Hafsteinn G. Einarsson, útvarpsstjóri

 

About The Author

Hafsteinn Gautur Einarsson

See author's posts

Continue Reading

Previous: Náð og friður

Related Stories

MYND-endanleg
  • Fréttabréf

Milljónamánuðurinn

Hafsteinn Gautur Einarsson 01/08/2025
Israel and Iran two flags textile cloth, fabric texture
  • Fréttabréf

Persía, Kús og Pút

Hafsteinn Gautur Einarsson 01/07/2025
Vonsvikinn maður
  • Fréttabréf

Vonlaus og niðurdreginn?

Hafsteinn Gautur Einarsson 01/05/2025

You may have missed

HDI-mynd-fyrir-vefsíðuna-JP
  • Fréttabréf

Hvernig hefurðu það?

Hafsteinn Gautur Einarsson 01/09/2025
Joyful Young African American Man in Wheelchair Embracing Freedom and Grace
  • Boðskapur dagsins

Náð og friður

Lindin, kristið útvarp 26/08/2025
MYND-endanleg
  • Fréttabréf

Milljónamánuðurinn

Hafsteinn Gautur Einarsson 01/08/2025
Israel and Iran two flags textile cloth, fabric texture
  • Fréttabréf

Persía, Kús og Pút

Hafsteinn Gautur Einarsson 01/07/2025
Lindin, kristið útvarp  |  Krókhálsi 4  |  110 Reykjavík  | Landsbankinn  0130-26-126868,  kt.  691194-2729 |  Sími 567-1818  |  www.lindin.is  |  lindin@lindin.is

Copyright © All rights reserved. | MoreNews by AF themes.