Boðskapur dagsins │ 20. nóv. 2025 │ Hafsteinn G. Einarsson
Sælir og blessaðir, kæru hlustendur.
Mig langar að færa ykkur boðskap dagsins að þessu sinni og gera að umtalsefni möguleikana sem við höfum til að taka stjórnina á hugsunum okkar og aðstæðum, þegar á reynir.
Þannig er að fyrir stuttu kom til mín góður vinur sem kvartaði sáran yfir depurð og neikvæðum hugsunum sem höfðu sótt á hann dagana á undan. Þetta var svosem ekkert nýtt fyrir hann. ”Kemur oft fyrir mig” sagð´ann ”en ég verð bara alveg handómögulegur og niðurdreginn þegar þetta gerist. Vil helst ekkert fara út úr húsi”. Þetta kemur víst reglulega fyrir hann. Andleg líðan hans snýst niður eftir einhverjum spíral, rakleitt niður á við, óstöðvandi, með tilheyrandi sjálfsvorkun, neikvæðni og depurð.
Kannastu við þetta, kæri hlustandi? Kemur það stundum fyrir þig að þú upplifir árásir á huga þinn, svo mjög að þér þyki nóg um? Ég held að við getum öll samsamað okkur að einhverju leyti slíkum aðstæðum. Sumir lenda í þessu nokkra daga í senn, aðrir reglulega, jafnvel samfellt dag eftir dag.
Málið er að við stöndum öll í andlegri baráttu. Það er barátta góðs og ills sem á sér stað í lífi okkar og vígvöllurinn er hugur okkar. Við getum verið í herbergi með öðru fólki og allt lítur vel út á yfirborðinu, en einn einstaklingur í hópnum getur verið að upplifa mikla innri baráttu og vanlíðan. Það sést kannski ekki utan á honum og við tökum ekki eftir neinu …. ekki fyrr en við gefum okkur að honum og tölum við hann. En að ytra útliti, virðist allt leika í lyndi.
Óvinur okkar, djöfullinn, gengur nefnilega um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt, eins og segir í fyrra Pétursbréfi. Djöfullinn hefur það að lifibrauði að taka niður einstaklinga, tæta í sig sköpun Guðs, afskræma og fá okkur til að trúa því að við séum ómöguleg og einskis nýt.
Sannleikurinn er hins vegar sá að við erum yndisleg sköpun Guðs, sköpuð í hans mynd og hæf ger til góðra verka. Hvert og eitt okkar hefur tilgang í lífinu …. og á því alla möguleika að lifa tilgangsríku lífi. Guð skapaði okkur, eitt og sérhvert, til að vera nýtilegir samfélagsþegnar, greinar á lífsins tré, með hæfileika og talentur sem eru einstakar.
En það sem er sárgrætilegast í þessu öllu er að þegar svona hugarvíl heltekur okkur, þá gerum við oft ekkert í málinu. Við trúum lyginni sem djöfullinn hvíslar að okkur. Ákærandinn kemur með hverja fullyrðingu á fætur annarri og reynir að telja okkur trú um að við séum sek í öllum ákæruatriðum. Og við sem erum kristin, við hleypum ekki verjanda okkar að, til að flytja mál sitt. Við látum þetta yfir okkur ganga. Verjandi okkar, Jesús Kristur, hefur nefnilega aðra sögu að segja og við þurfum því að leyfa honum að komast að, inn í huga okkar og hjarta.
Við sem kristnir einstaklingar höfum vald til að ráðast gegn ásókn djöfulsins. Við höfum aðgang að sama valdi og krafti og reisti Jesú Krist upp frá dauðum. Og þessu valdi þurfum við að beita.
Þú skalt aldrei sætta þig við það, þegar ákærandinn kemur með niðurbrjótandi lygi inn í kollinn á þér. Taktu slaginn um leið og það gerist. Segðu upphátt fullyrðingar um sjálfan þig og það sem Guð segir um þig í Ritningunni. Skipaðu með mynduleik og ákveðni, djöflinum og öllu hans hyski, að hafa sig á brott. Sparkaðu þessum púkum út í hafsauga, í Jesú nafni! Kallaðu yfir þig bóð Jesú Krist til hreinsunar á öllum hugsunum. Lýstu því yfir upphátt og af krafti að enginn hafi aðgang að hugsunum þínum, nema Frelsarinn sjálfur, Jesús Kristur, sem er leiðtogi lífs þíns.
Ritningin er líka full af leiðbeiningum um hvernig við getum staðið á Orði Guðs og háð trúarinnar góðu baráttu til að vernda okkur og allt okkar líf. Eitt hagnýtt ráð er að finna ritningavers sem tala okkur upp og byggja á fyrirheitum Guðs um okkur sem Hans sköpun.
Fyrir vin minn sem ég minntist á í upphafi, fann ég þrjá ritningastaði sem ég ráðlagði honum að lesa upphátt daglega. Ég setti versin á blað, prentaði út og lét hann hafa. Bað hann að setja blaðið á ísskápinn heima hjá sér og hafa þannig fyrir augunum á hverjum degi. Einnig að hafa þessi sömu vers á minnismiða í símanum sínum og í hvert sinn sem hugarvíl og neikvæðar hugsanir sækja á hann, að grípa símann og lesa versin upphátt.
Í fyrsta lagi þá eru það vers um hertygi ljóssins, sem finna má í Rómverjabréfinu, 13. kafla, vers 12 og 13. Ég breytti orðalagi versanna og ég setti þau í 1. persónu eintölu, til þess að gera innihaldið beinskeyttara og persónulegra fyrir hann þegar hann læsi þau upp. Versin hljóma þá svona:
Hertygi ljóssins
“Ég legg af verk myrkursins og klæðist hertygjum ljóssins. Ég lifi svo að sæmd er að. Ég er hvorki í ofáti né ofdrykkju, hvorki saurlífi né svalli, ekki með þrætum eða öfund. Ég er í Drottni Jesú Kristi og legg ekki þann hug á jarðnesk efni að það veki mér girndir.”
– Róm 13:12-13
Í öðru lagi, þá eru það versin í 6. kafla Efesusbréfsins, sem fjalla um okkur sem bænahermenn sem eiga í baráttu við hið illa sem sækir að okkur. Þarna erum við að klæða okkur í alvæpni Guðs. Gott er að hugsa þetta myndrænt, þegar við lesum versin. Að sjá sig klæðast þessum herklæðum og hvað við erum í raun vígaleg þegar við erum komin í þessi herklæði. Sett í 1. persónu, eintölu, þá hljóma versin svona:
Alvæpni Guðs
“Ég íklæðist alvæpni Guðs til þess að geta staðist vélabrögð djöfulsins. Því að baráttan sem ég á í er ekki við menn af holdi og blóði heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum. Ég tek alvæpni Guðs til þess að geta veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli þegar ég hef sigrað allt. Ég stend því gyrtur sannleika um lendar og klæddur réttlætinu sem brynju og skóaður á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðin um frið. Ég tek skjöld trúarinnar sem ég slekk með öll logandi skeyti hins vonda. Ég set upp hjálm hjálpræðisins og gríp sverð andans, Guðs orð. Ég geri það með bæn og beiðni og bið á hverri tíð í anda. Ég er árvökull og stöðugur í bæn fyrir öllum heilögum.” – Efesus 6:11-18
Og að síðustu, vers úr 2. Korintubréfi, eru líka kominn á blað á ísskápssegli á ísskápnum hjá vini mínum. Þau fjalla um að brjóta niður hugsmíðar sem eru ekki frá Guði og hljóða svona:
Ég brýt niður hugsmíðar
“Þótt ég sé maður þá berst ég ekki á mannlegan hátt, því að vopnin sem ég nota, eru ekki jarðnesk heldur máttug vopn Guðs til að brjóta niður vígi. Ég brýt niður hugsmíðar og allt sem hreykir sér gegn þekkingunni á Guði og hertek hverja hugsun til hlýðni við Krist.” – 2. Korintubréf 10:3-5
Kæri hlustandi,
Ég skora á þig að vera meðvitaður um baráttuna sem þú átt í. Veldu að hafna lyginni sem ákærandinn otar að þér í tíma og ótíma. Veldu að trúa sannleikanum sem Guð segir um þig. Þú ert gríðarlega öflugur og öflug, þegar þú beitir valdinu og kraftinum sem þú býrð yfir. Þú getur sigrast á öllum kringumstæðum. Beittu þeim andlegu vopnum sem Guð hefur gefið þér aðgang að og berstu trúarinnar góðu baráttu.
Ég þakka fyrir áheyrnina, kæru hlustendur.
Og sigurkveðja til ykkar allra, í Jesú nafni.
Hafsteinn Gautur Einarsson þakkar fyrir að sinni