Það er stutt í jólin.
Eftirvæntingu aðventunnar að ljúka og jólahátíðin að opnast fyrir framan okkur í allri sinni dýrð. Gleymum ekki fyrir hvað jólin standa og þeirrar gleði sem við erum aðnjótandi vegna þess sem gerðist fyrir 2000 árum; Guð ákvað að gerast maður og fæðast í þennan heim. Gaf okkur stærstu gjöf mannkynssögunnar, sem stendur öllum til boða sem þiggja vilja.
Við þurfum ekki lengur að lifa í þoku og hrasa á lífsins vegi í stöðugu vonleysi. Koma Jesú í heiminn og upprisa hans er ljósið sem skín skært. Býður upp á lifandi von öllum sem á hann trúa.
Setjum þetta í eina stutta þakkarbæn:
„Guð, þakka þér fyrir þessa jólahátíð og kærleikann sem þú sýndir okkur með því að senda son þinn í heiminn. Við erum þér eilíflega þakklát fyrir þá gjöf sem felst í Jesú Kristi og biðjum þess að hann verði áfram virkur í lífi okkar og blessi okkur um ókomin ár. Amen.“
Lindin óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs.
Kærleikskveðja,
Hafsteinn G Einarsson, útvarpsstjóri