22.10.2024 Vitnisburðir í Biblíunni
Boðskapur dagsins á Lindinni, 22. okt., 2024
VITNISBURÐIR í BIBLÍUNNI
Sælir kæru hlustendur.
Það er Hafsteinn Gautur Einarsson sem talar, útvarpsstjóri Lindarinnar.
Mig langar að færa ykkur boðskap dagsins að þessu sinni.
Mig langar að gera vitnisburði sjónarvotta að umtalsefni og þá staðreynd að tveir einstaklingar sem upplifa og sjá nákvæmlega sama atburðinn, geta lýst honum síðar meir með töluvert ólíkum hætti.
Í gegnum árin hef ég oft heyrt fólk segja að það efist um að Jesús Kristur hafi nokkru sinni verið til og aldrei gengið um hér á jörðinni. Það er gott fyrir okkur öll, okkur sem erum kristin og höfum trúarfullvissu að geta svarað svona fullyrðingum, rætt við fólk og gefið okkar álit. Við EIGUM líka að gera það. Það segir á einum stað í ritningunni að við eigum ætíð að vera reiðubúin að svara hverjum manni sem krefst raka fyrir voninni sem við eigum. Tökum samtalið og vitnum, hvenær sem við fáum tækifæri til.
Getum við sýnt fram á að Jesús Kristur hafi verið til? Skoðum það aðeins. Tökum eitt dæmi sem blasir við okkur – en sjaldan er talað um og það er tímatalið sem við notum. Tímatali okkar hefur verið skipt milli f.Kr. og e.Kr., út frá fæðingu þessa manns …… sem verður nú að teljast ótrúlega mikið afrek ef þessi einstaklingur var þá aldrei til eftir allt saman. Það eru sem sagt 2024 ár frá fæðingu hans og þetta ártal lesum við og skrifum oft á dag. Meira að segja kennitalan okkar inniheldur tilvísun í það hve mörg ár voru frá fæðingu Jesú þegar við fæddumst.
Merkilegt og yndislegt!
Sagnfræðingurinn Gary Habermas taldi upp 39 fornar heimildir um Jesú og út frá þeim meira en 100 staðreyndir um líf hans, kennisetningar, krossfestingu og upprisu.
Sögulegar staðreyndir fyrir aftöku Jesú eru svo margar að einn virtasti fræðimaður heims á sviði Nýja Testamentisins, þjóðverjinn Gerd Ludemann, fullyrti að „Dauði Jesú sem afleiðing krossfestingar væri óumdeilanlegur“. Þessi þekkti sagnfræðingur sagði að það væru sárafáar staðreyndir í mannkynssögunni sem væru jafn óumdeilanlegar og krossfesting Jesú Krists.
Við getum raðað saman grunnstaðreyndum um Jesú, eingöngu út frá almennum heimildum fyrir utan Biblíuna. Gerd Ludemann var trúleysingi, þannig að ekki er hægt að segja að trú hans hafi litað rannsóknarniðurstöður hans. Við getum sannað tilvist Jesú eingöngu með því að nota heimildir sem hafa alls enga samúð með kristinni trú.
Annar guðleysingi og sagnfræðingur, Bert Ehrman sagði: „Jesús var til, hvort sem okkur líkar það betur eða verr“.
Við getum orðað þetta svona. „Að neita tilvist Jesú lætur hann ekki hverfa. Það sýnir bara að engin sönnunargögn munu sannfæra þann sem afneitar því að hann hafi gengið á jörðinni“.
Víkjum nú að manni að nafni James Wallace. Hann er fyrrverandi morðrannsakandi frá Los Angeles og með áratuga reynslu sem slíkur. Hann tókst á við þá áskorun að skrifa bókina Cold Case Christianity, þar sem hann rannsakar fullyrðingar guðspjallanna fjögurra og skoðar þær með augum morðrannsakanda sem beitir öllum þekktustu og bestu aðferðum sem til eru, til að komast til botns í morðmálum.
Wallace rannsakaði vitnisburði sjónarvotta, eins og þeir eru útlistaðir í guðspjöllunum.
Til eru aðferðir sem hægt er að nota til að prófa áreiðanleika sjónarvotta. Ein af þeim er það sem kallað er vitnisburðargreining. Þar eru vitnisburðir sjónvarvotta rannsakaðir í þaula og skoðað hvað vitnin kjósa að gera lítið úr, hvað þau leggja áherslu á, hverju þau sleppa eða hvernig þau teygja tímann eða stytta hann. Þegar við rannsökum frásagnir sjónvarvottanna með þessum hætti, þá getum við séð hver lýgur, hver segir sannleikann og jafnvel hver sá seki er.
Wallace beitti sérfræðikunnáttu sinni til að rýna í dauða Jesú af völdum Rómverja og rannsakaði guðspjöllin eins og hann myndi rannsaka venjulegar lögregluskýrslur í dag. Fljótleg komst hann að því að guðspjöllin fjögur, sem eru skrifuð frá mismunandi sjónarhornum fólu í sér frásagnir sjónarvotta um líf, þjónustu, dauða og upprisu Jesú Krists.
Svo eru aðrir sem telja að þetta hafi verið samsæri hjá postulunum, þetta varðandi dauða og upprisu Jesú Krists og allt hafi þetta verið sagt í því augnamiði að efla útbreiðslu kristinnar trúar:
Gefum Walllace orðið sem svar við þeim pælingum:
„Maður íhugar samsæri þegar maður leggur mat á vitnisburð, en árangursrík samsæri fela oftast í sér sárafáar manneskjur. Mun auðveldara er fyrir tvo að ljúga og leyna einhverju en fyrir tuttugu. Og það er vandinn með samsæriskenningarnar sem tengjast postulunum á fyrstu öldinni. Þeir eru allt of margir að reyna að viðhalda þessu samsæri í allt of langan tíma. Og það sem verra er, þeir upplifa einstaka pressu, ólýsanlega pressu. Þeir voru allir pyntaðir og létu lífið fyrir það sem þeir sögðust hafa séð …. en ENGINN þeirra dró vitnisburð sinn til baka. Sú hugmynd að þetta hafi verið samsæri er einfaldlega fráleit. Það sem ég reyndar sé í guðspjöllunm eru dæmi um óviljandi stoðvitnisburð sjónarvotts“. (tilvitnun lýkur)
En hvað er óviljandi stoðvitnisburður sjónarvotts? Skoðum það aðeins.
Flettum upp í Matteusarguðspjalli til að sýna dæmi um þetta. Lítum á 26. kaflann þar sem Jesús er frammi fyrir Kaifasi, æðsta presti. Þar stendur:
„Og þeir hræktu í andlit honum og slógu hann með hnefunum en aðrir börðu hann með stöfum og sögðu: „Þú ert spámaður, Kristur. Hver sló þig?
Þetta virðist sérkennileg spurning því fólkið sem sló hann stóð fyrir framan hann. Þetta er út í hött. Hvers vegna ætti það að vera spádómur hjá Jesú að geta sagt hver sló hann?
Við fáum svarið þegar við lesum annan vitnisburð, nefnilega í Lúkasarguðspjalli, 22. kafla. Þar segir:
„Þeir menn sem gættu Jesú hæddu hann og börðu, huldu andlit hans og sögðu: Þú ert spámaður, segðu hver sló þig.“
Núna vitum við af hverju spámanns-spurningin kom fram. Lúkas segir okkur það sem Matteus sleppti, að augu Jesú voru í hulin, þegar þetta gerðist.
Svona óviljandi stoðvitnisburður sjónvarvotts dúkkar oft upp við rannsókn mála og fyllir upp í smáatriði sem annað vitni sleppti. Eftir að hafa rannsakað Guðspjöllin í mörg ár með aðferðum sem notaðar eru til að skera úr um áreiðanleika sjónarvotts var niðurstaðan sú hjá Wallace, að guðspjöllin fjögur í Biblíunni væru áreiðanlegar frásagnir um atburði sem raunverulega gerðust og það sem Jesú raunverulega sagði. Þar höfum við það.
Frásagnir í guðspjöllunum af sömu atburðunum eru mjög ólíkar og margir telja að þar séu allmörg dæmi um ósamræmi.
„Rétt er það“, segir Wallace, „en það er nákvæmlega það sem við getum búist við. Vitnisburðir sjónarvotta eru alltaf svolítið ólíkir – og fer eftir því hver er til frásagnar. Sjónarvottar nálgast atburði frá mismunandi landfræðilegum sjónarhornum í frásögn sinni, jafnvel þótt þeir hafi verið í sama herberginu sem atburðurinn gerðist í“.
Þegar Wallace rannsakaði guðspjöllin, þá reyndi hann að skera úr um hvort þau væru nákvæmar og traustar frásagnir þrátt fyrir mismuninn á milli frásagnanna.
Wallace segir: „Þegar ég hóf að rannsaka Guðspjöllin þá gerði ég það sem efasemdarmaður, ekki sem trúaður maður. Ég ólst ekki upp í kristnu umhverfi. Ég er því ekki kristinn af því að ég var alinn upp sem slíkur. Eða af því að ég vonaði að það uppfyllti þörf eða markmið. Ég er einfaldlega kristinn af því að það eru sönnunargöng fyrir þessum atburðum“.
Kæru hlustendur.
Það er gaman og fróðlegt að skoða Biblíuna út frá öðrum sjónarhóli en við erum vön. Hægt er að trúa því einfaldlega að allt sem fram kemur í henni sé satt og rétt, eins og margir gera en síðan er hægt að nálgast hana með augum efasemdarmannsins, þ.e. beita viðurkenndum og vísindalegum aðferðum eins og þeir Gerd Ludemann, Bert Ehrmann og James Wallace gerðu og komast að sömu niðurstöðu.
Þessi hugleiðing mín fæddist fram hjá mér við það að horfa á bíómyndina “God´s Not Dead 2”, sem þessa dagana er verið að sýna á sjónvarpsstöðinni Omega. Ég hvet þig til að horfa á þá mynd, ef þú hefur tök á.
Guð blessi þig ríkulega kæri hlustandi. Ég þakka fyrir mig.
Hafsteinn G. Einarsson