Ertu með miða?

Ég er sannfærður um að allt of oft reisum við veggi gagnvart því að vitna fyrir öðrum um trú okkar.

Við finnum okkur ástæðu til að grípa ekki tækifærið til að vitna fyrir ófrelsuðum. Ástæður eins og: „Fólk hefur ekki áhuga“ eða: „Af hverju ættu þau að hafa áhuga á að heyra minn vitnisburð?“, eða: „Þau hafa örugglega ekki áhuga á að heyra neitt um Guð, miðað við lífsstílinn sem þau viðhafa“ … og svo framvegis.

 

„En hvernig eiga menn að geta ákallað þann sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra án þess að einhver prédiki?”  – Róm. 10:14

Við sátum þrír á veitingastað við Skólavörðustíginn um daginn; íslenskur bróðir í Kristi, breskur vinur okkar og ég. Allir lifandi frelsaðir. Ung hjón sátu á næsta borði og voru þau í raun í innan við metra fjarlægð frá okkur. Þið kannist við þetta, það getur stundum verið svo þröngt á milli borða á veitingastöðum að maður er nánast ofan í næsta manni.

Risastórt kort af heiminum var eins og veggfóður á veggnum við hlið okkar. Og þarna var Ísland á sínum stað nyrst í Atlantshafinu. Vinur minn ákvað að brjóta ísinn og hefja spjall við ungu hjónin með því að segja …. „Ef þið eruð að velta fyrir ykkur hvar við erum þá erum við nákvæmlega hér“ og benti hróðugur á Ísland á kortinu. Svissnesku hjónin brostu og virtust nú vera með það alveg á hreinu.

Í kjölfarið hófst létt og skemmtilegt samtal. Hjónin komu til landsins með Norrænu á stórum, fjórhjóladrifnum trukki sem var útbúinn öllum þeim þægindum sem bestu hótel bjóða upp á. Í þessum breytta og upphækkaða fjallabíl voru þau búin að þræða hálendið og öll helstu náttúruundrin og virtust glöð og ánægð með Íslandsdvölina. Þau sögðu okkur hvernig þau höfðu keypt sér miða með Norrænu og hvert ferðinni væri heitið næst á flakki þeirra um heiminn.

Vinur minn greip þá tækifærið og sagði „Það er frábært að þið nælduð ykkur í miða til Íslands en hafið þið náð ykkur í mikilvægasta farmiðann af þeim öllum?“ Hjónin virtust hissa. Vinur minn hélt áfram: „Farseðilinn til himna!  Eruð þið búin að tryggja ykkur miða inn í eilífðina?“

Á þessu augnabliki kom þjónninn með matinn fyrir hjónin og við tók hálf vandræðaleg þögn. Ég viðurkenni að á þessu augnabliki hélt ég að við værum búin að missa þau. Þau voru rétt að byrja að borða og svo virtist sem þau hefðu ekki áhuga á að halda samtalinu áfram.

En mér til ánægju þá hallaði konan sér að mér og spurði „Ert þú með miða?“.

Og þar með var allt opið fyrir langt spjall um fagnaðarerindið. Hjónin voru forvitin, þau hlustuðu, spurðu margs og höfðu einlægan áhuga á því sem við höfðum að segja. Ég efast ekki um að þessi hittingur var undirbúinn og innblásinn af Guði. Hann gerðist eðlilega, yfir afslöppuðu borðhaldi, án nokkurrar þvingunar og reyndist vera hin mesta skemmtun. Þarna tókst okkur á sá. Setja sáðkorn í hjörtu þeirra og fá þau til að skoða málið. Við komum með aðkallandi spurningu til þeirra, sem í raun er á þeirra ábyrgð að svara, í kjölfarið á þessum hittingi.

Við félagarnir vorum allir mjög uppörvaðir. Trúboðshjartað okkar var nú fullt af andlegri gleði.

Og nú langar mig að spyrja þig, kæri lesandi …
> Ert þú opin(n) fyrir tækifærum eins og þessum í daglegu lífi?
> Ertu með augun opin?
> Ertu viljug(ur) að benda fólki á Jesú, hvenær sem tækifæri gefst?

Að færa fólki fagnaðarerindið á að vera eðlilegasti hlutur í heimi. Tækifærin sem við fáum eru fjölmörg, því við erum í stöðugum samskiptum við annað fólk í okkar daglega lífi. Þessum augnablikum getum við breytt í himneskar gæðastundir ….. sem breyta lífi fólks til eilífðar.

Lindin hvetur þig, kæri hlustandi, til að grípa þessi himnesku tækifæri þegar þau gefast. Heilagur Andi er með þér og fagnaðarerindinu fylgir kraftur sem hjálpar þér að stíga fram.

Kærleikskveðja,
Hafsteinn G. Einarsson, útvarpsstjóri


    Lindin mín

    App Lindarinnar hefur fengið frábærar viðtökur. Það er notað 1.100 sinnum að meðaltali í hverjum mánuði. Svo hlusta margir á dagskrá Lindarinnar í beinni í gegnum appið.

    Smelltu á myndina að ofan til að eignast þína eigin Lind.

    Lindin, kristið útvarp │ Krókhálsi 4 │ 110 Reykjavík │ kt. 691194-2729 │ S: 567-1818 │ lindin@lindin.is